Izudin Daði Dervic er fæddur í Bosníu & Herzegovinu en flutti til Íslands árið 1990 þegar hann samdi við Selfoss um að spila með liði félagsins í næstefstu deild í fótbolta. Hann átti svo farsælan feril í efstu deild árin á eftir með FH, Val, KR, Leiftri og Þrótti auk þess að spila 14 landsleiki fyrir A-landslið Ísland þegar hann fékk svo ríkisborgararétt. Izudin Daði Dervic hefur verið búsettur á Íslandi í 36 ár. Hann kom hingað til lands til að spila fótbolta og býr hér enn. Daði náði snemma góðum tökum á íslenskunni en segist sífellt minna geta notað hana að minnsta kosti í vinnunni. Daði er meðal viðmælenda í fyrsta þætti Balkanbræðra, sex þátta útvarpsþáttaraðar á Rás 1 um fyrstu leikmennina frá gömlu Júgóslavíu sem komu til Íslands til að spila fótbolta á árunum 1989 til 1992. Daði náði mjög fljótt tökum á því að tala íslensku og talar málið nær óaðfinnanlega. Pabbi hans lagði áherslu á að læra nýtt tungumál „Árin áður en ég kom til Íslands spilaði ég í Slóveníu og þar er talað annað tungumál en í Bosníu þaðan sem ég kem. Pabbi minn heitinn lagði ríka áherslu á það við mig að ég lærði tungumálið þegar ég flytti í nýtt land. Þá væri allt miklu einfaldara. Pabbi var smiður og vann í öðrum löndum þannig hann hafði reynsluna af þessu,“ segir Izudin Daði Dervic um það hvers vegna hann lagðist í það strax að læra íslensku eftir að hann flutti til Íslands árið 1990 til að spila fótbolta. „Ég og [Salih Heimir] Porca bjuggum saman á Selfossi þegar við komum þangað árið 1990. Þannig að við límdum miða á alla hluti í íbúðinni okkar með íslensku heitunum á hlutunum. Þannig við lærðum eiginlega bara tungumálið þannig. Mér fannst það bara miklu einfaldara. Ég fór aldrei í neinn skóla til að læra íslensku eða á nein námskeið. Ég lærði þetta bara svona hér og þar og læri ennþá,“ segir Daði Dervic í fyrsta þætti Balkanbræðra, þáttaraðar í sex hlutum sem frumfluttur var á Rás 1 á laugardag og má finna í Spilara RÚV og á helstu hlaðvarpsveitum. Varla hægt að tala íslenskuna við neinn í dag „En því miður þó ég sé löngu orðinn altalandi á íslensku að þá er varla hægt að tala hana hérna í dag hvert sem maður fer. Eins og ég orðaði það um daginn að þá voru það kannski mistök að læra íslenskuna,“ segir Daði en hann býr í dag á Eskifirði og starfar í Álverinu á Reyðarfirði þar sem hann talar mest ensku við samstarfsfólk sitt. „En að sjálfsögðu er það alveg peninganna virði að hafa lært íslenskuna. Þannig að auðvitað sé ég ekkert eftir því að hafa lært tungumálið,“ segir Izudin Daði Dervic en nánar er rætt við hann, Salih Heimi Porca, Luka Kostic og Goran Kristófer Micic í fyrsta þætti Balkanbræðra sem fluttur var á Rás 1 á laugardag. Izudin Daði Dervic hefur verið búsettur á Íslandi í 36 ár. Hann kom hingað til lands til að spila fótbolta og býr hér enn. Daði náði snemma góðum tökum á íslenskunni en segist sífellt minna geta notað hana að minnsta kosti í vinnunni. Þáttaröðin Balkanbræður er á dagskrá Rásar 1 á laugardögum klukkan 10:15 frá 10. janúar til 14. febrúar. Þættina má nálgast í Spilara RÚV og á hlaðvarpsveitum.