Kjartan Orri Þórsson, sérfræðingur í málefnum Írans, telur líklegt að mótmælin í Íran haldi áfram að aukast. Hann býst auk þess við aukinni hörku í viðbrögðum stjórnvalda við mótmælunum. Fjölmenn mótmæli gegn klerkastjórninni í Íran hafa staðið óslitið frá því fyrir áramót. Þau byrjuðu í höfuðborginni Teheran og kveikjan var áhyggjur almennings af falli gjaldmiðilsins, mikilli dýrtíð og hækkandi framfærslukostnaði en hafa í ríkara mæli beinst gegn stjórnvöldum. Pahlavi er andsvar við klerkastjórninni Kjartan Þór telur líklegt að Reza Pahlavi, útlægur sonur Íranskeisara sem var steypt af stóli í klerkabyltingunni 1979, sé ákveðið andlit og andsvar við klerkastjórninni í augum mótmælenda. Hann segir þó erfitt að rannsaka það í raun. „Og svo lifum við þann veruleika í Íran núna að svona stjórnarandstaða eða eðlilegt lýðræðislegt samtal hefur ekkert verið að eiga sér stað, eða er ekki til.“ Kjartan Þór segir það útskýra af hverju mótmælendur grípa í Pahlavi, sem þekkt andlit, en segir erfitt að meta hvort að Pahlavi geti snúið til baka til Íran og þá hvort það sé eitthvað stjórnmálaafl í kringum hann. Mótmælin nú frábrugðin mótmælunum 2022 Þetta eru umfangsmestu mótmæli í landinu frá haustinu 2022 og eru álitin ein stærsta áskorun klerkastjórnarinnar síðan hún rændi völdum 1979. Mótmælin 2022 brutust út eftir að siðgæðislögregla landsins drap Masha Amini, unga konu af kúrdískum ættum, þar sem hún þótti hafa brotið gegn reglum um klæðaburð kvenna. Kjartan Þór segir mótmælin nú sprottin upp vegna þess að fólk eigi erfitt með að kaupa nauðsynjar. Mótmælin 2022 hafi snúist meira um frelsi og kvenréttindi. „Það er erfitt að lifa einhvern veginn undir íslamska lýðveldinu akkurat núna.“ Hann segist hafa á tilfinningunni að mótmælin nú séu stærri og öðruvísi tónn í stjórnvöldum. Stjórnvöld tali við mótmælendur og jafnvel taki undir að það verði að vera hægt að kaupa nauðsynjar. „Það er aðeins annar tónn samt sem áður þó þau séu að slá hart gegn mótmælendum,“ segir Kjartan Þór.