Rafbílar verða ódýrari

Sala á rafbílum jókst í nóvember og desember. 1298 fólks- og sendibílar knúnir rafmagni voru seldir í desember og 942 í nóvember fyrir 1,9 milljarð króna. Þarna eru einungis taldir bílar sem kostuðu minna en tíu milljónir því þeir eingöngu eru styrkhæfir. Í fyrra var rafbílasalan minnst í janúar 203 bílar samkvæmt tölum frá Umhverfis- og orkustofnun. Rafbílasalan undir lok árs á var þó mun minni en í árslok 2023 þegar á fjórða þúsund hreinorkubíla var seldur. Þá var eftir meiru að slægjast en nú því eftir 1. janúar 2024 var lagður virðisaukaskattur á rafbíla, sem ekki var áður, og styrkir veittir í staðinn. Við þá breytingu hækkaði verðið. Nú hins vegar var rafbílastyrkurinn lækkaður úr 900 í 500 þúsund krónur að hámarki en á móti var vörugjald fellt niður. Sigurður Ingi sviðsstjóri orkuskipta og hreinorkuhagkerfis hjá Umhverfis- og orkustofnun segir að sala á bensín- og dísilbílum hafi var ekki mikil síðustu tvo mánuði ársins: „Salan var ekkert mikil eða hún jókst ekkert mikið en við vitum að það var flutt mjög mikið inn af bílum hjá umboðum sem eru að koma seinna inn í kerfið, mikið til hjá bílaleigum og verða seldir seinna. Innflutningstölur sýna það. Og þar voru auðvitað aðilar að reyna að tollafgreiða bíla á lægri vörugjöldum af því að vörugjöldin á bensín- og dísilbíla snarhækkuðu núna um áramótin. Sem þýðir það í rauninni að á árinu 2026 og til framtíðar að þá verða rafbílar almennt talsvert ódýrari í innkaupum en sambærilegir bensín- og dísilbílar. Og eru svo auðvitað talsvert ódýrari í rekstri ofan á það.“ Allar þessar verðbreytingar og jafnframt lækkað bensínverð og upptaka kílómetragjalds á allar bifreiðar þýðir að þau sem vilja kaupa sér nýjan bíl þurfa líklega að spá betur eða öðru vísi í reikningsdæmið en áður. Model 3 kostar minna en Yaris Dæmi um verð á tveimur algengum bílum er að ódýrasta tegundin af Toyota Yaris Hybrid kostaði þann 10. janúar 2026 kr. 5.750.000 samkvæmt vef Toyota en ódýrasta tegundin af Tesla Model 3 var 40 þúsund krónum dýrari og kostaaði kr. 5.790.000 samkvæmt vef Tesla 10. janúar. En þá er eftir að draga frá rafbílastyrkinn upp á 500 þúsund krónur. Verðið á Tesla Model 3 er þá 460 þúsund krónum lægra en ódýrasta gerð Toyota Yaris eins og staðan var 10. janúar 2026.