Leikskólastjóri segist vera uggandi um að ekkert verði úr svokallaðri Reykjavíkurleið í leikskólamálum. Hún telur ósætti innan flokka um tillögurnar og yfirvofandi sveitastjórnarkosningar spila þar stórt hlutverk. „Ég hef áhyggjur af stöðunni því það virðist ekkert vera að frétta. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en ég óttast að ef eitthvað verði gert þá verði það mikið útþynnt frá því sem var kynnt fyrir okkur upphaflega,“ segir Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri Nóaborgar í Reykjavík. „Spurning um hvað þeir þora að fara út í miklar aðgerðir“ Í september voru kynntar umfangsmiklar breytingar í leikskólamálum, ný leið sem kölluð var Reykjavíkurleiðin, unnin af spretthópi kjörinna fulltrúa. Tillögurnar lúta að skipulagi leikskóladagsins, dvalartíma barna og gjaldskrá leikskóla. Anna Margrét segir tillögurnar hafa lagst vel í stjórnendur og starfsfólk og þeim sagt að draga myndi til tíðinda um áramót. Ekkert hafi þó heyrst frá spretthópnum. „Þau virðast vera mjög sammála í hópnum, en eftir að tillögurnar komu fram þá hefur komið upp mikil andstaða og alveg innan flokkanna. Þannig ég óttast að baklandið sé ekki að styðja og svo er náttúrulega stutt í kosningar þannig að það er spurning hvað þeir þora að fara út í miklar aðgerðir ef þeir halda að það styggi kjósendur.“ Leikskólastarfsfólk langeygt eftir tíðindum „Leikskólastjórar eru mjög áhyggjufullir og það er þungt hljóð í mínum kollegum og starfsfólki leikskólanna. Það eru allir einhvern veginn að bíða eftir þessu og voru bjartsýnir og peppaðir að fara inn í nýtt ár með betri vinnuaðstæður og minna álag. Þannig þetta veldur gríðarlegum vonbrigðum að það sé verið að draga þetta enn þá.“ Staðan versni með hverjum mánuðinum sem líður. „Við höfum verið að missa fólk yfir í önnur sveitarfélög. Ekki bara starfsfólk heldur líka leikskólastjóra. Í þessu tilviki er grasið grænna hinu megin við lækinn sko.“ Mikilvægt sé að brugðist verði við. „Það þarf bara að fara að koma þessum tillögum í gegn. Það er ekkert annað sem hægt er að gera. Reykjavík er eina sveitarfélagið hér í kring sem er ekki með neinar aðgerðir,“ segir Anna Margrét. „Annars missum við enn fleira fólk, það verður enn erfiðara að fá fólk í vinnu og það munu fleiri leikskólar fara í fáliðunarferli sem er ömurlegt.“