Samstöðumótmæli við stjórnarráðið

Íranir á Íslandi komu saman við stjórnarráðið í dag til samstöðumótmæla gegn klerkastjórninni í Íran. Efnt var til sams konar mótmæla við Alþingishúsið um síðustu helgi. Tugir eru látnir í mótmælunum í Íran, sem staðið hafa frá því fyrir áramót. Þau byrjuðu í höfuðborginni Teheran og kveikjan var áhyggjur almennings af falli gjaldmiðilsins, mikilli dýrtíð og hækkandi framfærslukostnaði. Síðan hafa þau breiðst um landið og í ríkara mæli beinst gegn stjórnvöldum. Kjartan Orri Þórsson, sérfræðingur í málefnum Írans, sagði í hádegisfréttum líklegt að mótmælin í Íran haldi áfram að aukast og búast megi við meiri hörku frá stjórnvöldum gegn mótmælendum.