Tvöfalt meira atvinnuleysi á Suðurnesjum – „Mikið högg fyrir okkar samfélag“

Mikið atvinnuleysi á Suðurnesjum miðað við aðra landshluta er högg segir forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ og fá störf auglýst. Unnið er að því að fjölga atvinnutækifærum í bænum til að bregðast við. Atvinnuleit til lengri tíma getur tekið á. Á samfélagsmiðlum segist fólk hafa sótt um margar vinnur síðan í haust en ekki fengið viðtal, og fleiri segjast vera í sömu sporum. Ein lýsir því að með hverjum deginum minnki sjálfstraustið. Atvinnulausum fjölgar lítillega á milli mánaða. Í nýrri mánaðarskýrslu vinnumálastofnunar er skráð atvinnuleysi 4,4%, það þýðir að í kringum níu þúsund manns eru án atvinnu. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysiskrá er í kringum 60% í lok desember. Eftir landshlutum er atvinnuleysi langmest á Suðurnesjum, eða nærri 9%. Það er um það bil tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum ferðaþjónustusamfélag og leggjum okkur fram við það, en um leið og það koma einhverjar sveiflur þá finnum við ofboðslega mikið fyrir þeim og það erum við að sjá í dag því miður,“ segir Guðný Birna Guðmundsdóttir forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi fari hækkandi í janúar og verði allt að 4,7%. „Við sjáum eins og Vinnumálastofnun er að auglýsa störf, það eru 20 störf, það eru á Alfreð 11 störf á Suðurnesjum, það er ekki mikið að moða fyrir 9 þúsund manns tæplega sem eru atvinnulausir,“ segir Guðný Birna jafnframt. Áður hafði Covid haft mikil áhrif á atvinnulíf á Suðurnesjum og fall Play. „Þetta er núna þriðja sveiflan á tæplega sex árum, sem er mikið högg fyrir okkar samfélag - en við munum ná okkur á strik, það eru blikur á lofti.“ Guðný Birna segir unnið að því að skapa önnur tækifæri en ferðaþjónusta í bænum, til dæmis sé stefnt að stóru nýju landeldi í sveitarfélaginu. „Við höfum verið að stefna að því undanfarin ár að fjölga eggjunum. Hvernig getum við gert það? þannig að við erum áfram þessi ferðaþjónustu bær og bæjir,“ segir Guðný Birna. „En við erum líka meðvituð um það að við ætlum líka að byggja upp eitthvað nýtt, við erum að leita og höfum verið að styrkja frumkvöðlastarf á Suðurnesjum,“ bætir hún við.