Ali Mobli, Írani sem býr á Íslandi, biður fyrir ástvinum sínum í Íran vegna þess hve harkalega yfirvöld taka á mótmælendum í landinu. Það hafa staðið síðan stuttu fyrir áramót. Aukinn þungi er í þeirri kröfu að stjórnvöld fari frá völdum. Fregnir hafa borist af því að öryggissveitir yfirvalda hafi drepið yfir 200 manns og handtekið yfir 2.000. Mótmælin, sem hófust í lok desember, eru talin þau fjölmennustu og útbreiddustu í Íran síðan klerkastjórnin tók völdin árið 1979. Mótmælendur koma úr öllum kimum samfélagsins. Í byrjun var bágu efnahagsástandi mótmælt en fljótlega fór krafa um stjórnarskipti að verða hávær. Írani sem búsettur er hér á landi segir mikilvægt að rödd írönsku þjóðarinnar heyrist á meðan stjórnvöld þar í landi loki fyrir internetið til að leyna grimmdarverkum. Hugrekki mótmælenda sé ótrúlegt, frammi fyrir byssukúlum sveita yfirvalda. Ali segir mótmælin einstök. „Þetta er í fyrsta sinn í 47 ár sem milljónir flykkjast út á götur og krefjast stjórnarskipta,“ segir hann. Það sem aðgreini þessi mótmæli frá öðrum sé mikill stuðningur alþjóðasamfélagsins. Bandaríkjaforseti hefur hótað írönskum stjórnvöldum harkalegum viðbrögðum ef þau drepa mótmælendur og telur Ali að fleiri væru drepnir ef ekki væri fyrir þessar yfirlýsingar Trumps. Netsamband rofið til að leyna grimmdarverkum Íranir vilji lýðræði og að gengið verði til kosninga. „Fólk vill að þessari bilun ljúki, það vill frjálsar kosningar, það vill geta haft eitthvað að segja um eigið líf. Það vill ekki vera svipt grundvallarmannréttindum. Hver myndi vilja það?“ spyr Ali. Yfirvöld í Íran hafa lokað fyrir Internetið síðan á fimmtudag. Ali hefur því ekki heyrt í fjölskyldu og vinum síðustu tvo sólarhringa. „Yfirvöld gera þetta alltaf til að breiða yfir illvirki sín, svo við höfum ekki náð sambandi við neinn í Íran. Við biðjum bara fyrir fólkinu og reynum að láta í okkur heyra eins og við framast getum, að vera rödd þeirra raddlausu, í myrkrinu, á köldum götum Teheran og um allt Íran, þeirra sem standa óvopnaðir frammi fyrir hlöðnum byssum. Hugrekki þeirra er ótrúlegt.“ Margir með skotsár, samkvæmt lækni Ríkissaksóknari Írans hefur hótað mótmælendum dauðarefsingu og skipað saksóknurum landsins að hafa hraðar hendur og sýna enga miskunn. Tímaritið Time hafði eftir lækni í höfuðborginni í gær að 217 mótmælendur, hið minnsta, hafi verið drepnir. Flestir þeirra hafi verið með skotsár. 2.200 hafa verið handteknir. „Ayatollah Khamenei kallar þá hryðjuverkamenn og fyrirskipar dráp á löndum sínum. Í stað þess að hlusta á fólkið berja þeir það niður í sífellu. Þeir myrða fólkið af því að velferð írönsku þjóðarinnar hefur aldrei skipt stjórnvöld máli,“ segir Ali. Boðað hefur verið til samstöðumótmæla víða um heim, meðal annars í Reykjavík í dag og kom fólk saman við Stjórnarráðið. Segir Pahlavi tákn um frelsi Sú krafa hefur heyrst að Reza Pahlavi, útlægur krónprins og sonur Íranskeisara sem var steypt af stóli 1979, snúi til baka til Írans og taki þátt í nýrri stjórn landsins. Hann hefur hvatt mótmælendur til dáða í myndskeiðum á samfélagsmiðlum. Ali segir litið á Pahlavi sem táknmynd um betri tíð. „Pahlavi er ekki manneskja, Pahlavi er frelsiskóðinn. Hann er tákn frelsisins, tákn ljóssins gegn myrkrinu.“