Þrír leikir fóru fram í 8-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta í dag. Tindastóll og KR mættust á Sauðárkróki og þar reyndust heimakonur sterkari því 4 stig skildu liðin af við leikslok, 72-68. Tindastóll byrjaði betur þar sem liðið komst í 8-0 eftir rúman mínútu leik. Þá jöfnuðust leikar í fyrsta leikhluta en syrpa Stólanna í upphafi leiks færði þeim níu stiga forskot eftir þann fyrsta, 26-17. Tindastóll jók forystuna í öðrum leikhluta og liðið leiddi í hálfleik, 47-33. Engin stig í sex og hálfa mínútu Snemma fjórða leikhluta hafði Tindastóll 21 stig forskot, 66-45. Þá kom loksins áhlaup frá KR sem skoraði næstu 11 stig, 66-56. Þegar tæpar fimm mínútur lifðu leiks minnkaði Perla Jóhannsdóttir muninn í sex stig með þriggja stiga körfu, 66-60 og þá færðist meiri spenna í leikinn. Ekkert gekk hjá Tindastóli því Jiselle Thomas skoraði 20. stigið í röð fyrir KR þegar Stólarnir höfðu ekki skorað í sex og hálfa mínútu og einu stigi munaði, 66-65. Eftir dramatískan lokakafla var það Tindastóll sem hélt út og vann fjögurra stiga sigur, 72-68. Marta Hermida fór mikinn fyrir Tindastól í kvöld þegar hún skoraði 30 stig, tók fimm fráköst og átti átta stoðsendingar. Fyrr í dag mættust Keflavík og Haukar þar sem Keflvíkingar unnu sannfærandi sigur og leika því í undanúrslitum. Grindavík kom til baka og vann loks öruggt Grindavík og Aþena mættust einnig í Grindavík. Þar byrjaði Aþena betur því liðið náði tíu stiga forskoti í fyrsta leikhluta, 14-24. Grindvíkingar tóku við sér og leiddu með fjórum stigum í hálfleik, 39-35. Grindvíkingar reyndust seigari í seinni hálfleik og liðið vann loks öruggan sigur 80-69. Síðasti leikur 8-liða úrslitanna fer svo fram á morgun þegar Ármann og Hamar/Þór berjast um síðasta sætið í undanúrslitunum.