Þökk sé framleiddum snjó var hægt að opna byrjendasvæðið í Bláfjöllum í morgun. Vont að hafa engan snjó í janúar segir rekstrarstjóri en barnafólk flykktist í brekkurnar, þangað mættu í kringum þúsund manns í dag - enda langt síðan þar hefur verið opið. „Löngu kominn tími á þetta,“ segir Einar Bjarnason rekstrarstjóri Bláfjalla. Byrjendasvæðið var opið í dag. Snjóbyssurnar eru komnar í stóru brekkurnar og ef allt gengur að óskum er vonast til að hægt verði að opna stólalyftu næstu helgi. „Við renndum svolítið blint í snjóinn hvað það myndi koma af fólki og hérna er búið að vera traffík í allan dag, og óvenjulegt að sjá svona mikið af barnafólkið í staðinn fyrir þessa brettadúdda og stóru krakka,“ bætir hann við.