Spennt fyrir samkomulagi við Bandaríkin um aðstoð og ákveðin fríðindi

Allir stjórnmálaflokkar á Grænlandi hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem ítrekað er að Grænlendingar vilji hvorki vera Danir né Bandaríkjamenn og aðrir eigi ekki að blanda sér í framtíð þeirra. Yfirlýsingin er sögð afrakstur samningaviðræðna milli flokkanna í gær. Flokkarnir töldu nauðsynlegt að koma með sameiginleg skilaboð vegna orða Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, um að taka yfir Grænland. En skömmu síðar bætti Trump enn í orðræðu sína um yfirtöku á landinu. Munu innlima Grænland með góðu eða illu „Við ætlum að gera eitthvað varðandi Grænland, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Ef við gerum það ekki taka Rússland eða Kína völdin þar. Við ætlum ekki að eiga Rússland eða Kína sem nágranna,“ sagði Trump. Við berjumst þangað til við fáum sjálfstæði, segir þingmaður stjórnarandstöðuflokks Grænlands. Bandaríkjaforseti segir að Grænland verði tekið með góðu eða illu. Grænlenskir stjórnmálamenn hafa brugðist við þessum ummælum Trumps. Aqqaluk Lynge, einn af stofnendum Innuit Attaqatigit, sagði í viðtali við TV2 í dag að yfirtaka Bandaríkjanna á Grænlandi væri þegar hafin. Á sama tíma sagði leiðtogi Naleraq, Pele Broberg, að Danir væru við það að eyðileggja NATO með einhverju óðagoti um að halda Grænlandi og annar þingmaður hefur hvatt til að fundað sé með Bandaríkjamönnum án Dana. En þrátt fyrir að togstreita sér í stjórnmálunum á Grænlandi tókst þeim að koma sér saman um orðalag yfirlýsingarinnar. Stjórnarandstöðuþingmanni hugnast samkomulag Mette A-Hammeken, þingmaður stjórnarandstöðuflokksins Naleraq, segist ekki vilja að Grænland verði hluti af Bandaríkjunum. Hún segist þó spennt fyrir svipuðu fyrirkomulagi og er milli Bandaríkjanna og þriggja Kyrrahafseyja, en það veitir þeim aðgang að ýmiss konar aðstoð og fríðindum frá Bandaríkjunum. „Það er markmiðið, vera frjáls þjóð og geta verið í samvinnu við aðrar þjóðir. Við getum unnið að því að vera sjálfstæð þjóð með Free association - frá því að vera nýlenda. Það eru mjög spennandi tímar.“ Hún segir Grænland vera landið þeirra og að baráttan fyrir sjálfstæði muni aldrei hætta. „Við berjumst þangað til landið okkar fær fullt sjálfstæði, án ítaka annarra að stjórn landsins. Við viljum stjórna landinu okkar að fullu, sem fullvalda þjóð.“ Í næstu viku er reiknað með að utanríkisráðherrar Grænlands, Danmerkur og Bandaríkjanna hittist á fundi. Enn er ekki vitað hvar eða hvenær í næstu viku sá fundur verður.