Langþreytt á gruggugu vatni úr Grábrókarhrauni

Gruggugt neysluvatn hefur lengi plagað íbúa í uppsveitum Borgarfjarðar sem fá vatn undan Grábrókarhrauni. Fulltrúar Veitna segjast skilja gremjuna og unnið sé að lausn. „Þú veist aldrei hvenær þú átt von á þessu, aldrei. Það getur verið til dæmis þegar þú ætlar að þvo hvíta þvottinn þinn,“ sagði Vilhjálmur Hjörleifsson, íbúi í Norðurárdal. Hann blés til íbúafundar á Hótel Varmalandi í gær, þar sem neytendur vatnsins fóru yfir stöðuna ásamt fulltrúum frá Veitum. Yfirlýsing fundarins Á þeim 18 árum sem Grábrókarveita hefur verið í rekstri, hefur grugg í neysluvatni frá henni verið viðvarandi vandamál. Fundurinn skorar á forráðamenn Veitna ohf. að ganga nú þegar í það verk að afhenda notendum Grábrókarveitu hreint vatn. Fundarmenn lýsa sig tilbúna til að hjálpa til við að finna nýjar vatnslindir sem gefa hreint vatn, í nágrenninu, svo komist verði hjá að nota borholur í Grábrókarhrauni. Vilhjálmur segir íbúa svíða undan sinnuleysi Veitna, enda hafi vandamálið verið viðvarandi í 18 ár. Gruggast við jarðhræringar og úrkomu Gruggið í vatninu gerir sjaldnast boð á undan sér. Vatnið gruggast til að mynda við jarðhræringar á Reykjanesskaga eða mikla úrkomu. Tvisvar á ári skola Veitur set úr lögnunum og þá gruggast vatnið líka. Borholan undir Grábrókarhrauni var tekin í notkun 2007 og átti að vera lausn á vatnsvandamálum. Vatnið kemur ú rHreðavatni og upphaflega átti að nota það fyrir Borgnesinga líka. Gissur Þór Ágústsson, rekstrarstjóri Veitna á Vesturlandi, segir að fljótt hafi orðið vart við gruggið eftir að veitan var tekin í notkun. Veitur hafa sett upp síur og geislunartæki til að tryggja heilnæmi vatnsins. Agnirnar í vatninu eru hinsvegar svo fínar að síurnar mega sín lítils. Á fjölmennum íbúafundi á hótel Varmalandi kölluðu íbúar og rekstraraðilar í grennd við Grábrókarhraun eftir úrbótum á vatnsveitunni. Allt frá því vatnsveitan var tekin í notkun árið 2007 hefur vatnið átt til að gruggast. Fullt hótel af gestum og óboðlegt vatn Stórar sumarhúsabyggðir við Munaðarnes og Svignaskarð og hótel í Borgarfirðinum fá vatn úr veitunni. Umsjónarmaður fasteigna í einni sumarhúsabyggð sagði það reglulega koma fyrir að gestir styttu dvöl sína eða krefðust endurgreiðslu þegar vatnið yrði óboðlegt. Hann segir líka viðhald kostnaðarsamt. Aðalgeir Ásvaldsson er ráðgjafi við Hótel Varmaland. Um miðjan nóvember lentu þau sérstaklega illa í vatninu. „Þá kom bara brúnt úr krönunum og brúnt í pottinn,“ segir hann. Hótelið var fullt af gestum. „Við fórum lóðbeint í Borgarnes og kaupum allt vatn á flöskum sem til er í Bónus og Nettó og hvaða búð sem er.“ Það sé líka vont þar sem hótelið er umhverfisvottað. Aðalgeir segir gruggið skerða samkeppnishæfni, enda reiði ferðaþjónusta sig á endurgjöf gesta. Við hótelið er 50.000 lítra tankur fyrir kalt vatn. Hann fylltist af gruggi og það tók nokkra daga að ná honum hreinum. „Þetta var bara eins og að sturta út kókómjólk úr þessum tanki,“ segir Aðalgeir. Hann bendir á að hreint vatn er eitt af aðalsmerkjum ferðaþjónustunnar á Íslandi. Á fjölsóttum íbúafundi á hótelinu fóru fulltrúar Veitna yfir stöðuna. „Við höfum sett upp síubúnað upp í Grábrókarhrauni og reynum að hafa sem stöðugasta dælingu til að hafa sem mest jafnvægi og ró í uppdælingu á vatninu,“ sagði Gissur. Þá hafa Veitur hafa ráðgast við sænska verkfræðistofu til að finna betri síur. Fyrirhugað er að finna nýjan vatnstökustað í sveitinni og Veitur ræða nú við landeigendur. „Það er vonandi bara á lokametrunum að ná samkomulagi um það.“