Trausti Ólafsson skrifar: Það eitt að heyra rödd Helgu Steffensen hljóma úr hljóðkerfi Tjarnarbíós setti af stað mikinn hugsanaflaum í höfði mér. Rödd Helgu hefur verið mér kunnug svo lengi að ég get ekki rifjað upp hvar og hvenær ég heyrði hana fyrst. Líkast til var það samt einhvern tímann í Stundinni okkar í sjónvarpinu, meðan ég fylgdist ennþá eitthvað með þeim góða, gilda og eldgamla dagskrárlið. Þar var Helga, að því er mig minnir, oft aufúsugestur með leikbrúður sínar sem hún útbjó, stjórnaði og ljáði rödd. Nú síðast heyrði ég Helgu syngja fyrir börn og fullorðna í sýningu Brúðubílsins í Tjarnarbíói þegar hún var frumsýnd á sunnudegi milli jóla og nýárs. Brúðubíllinn, sem í áratugi hefur brennt á milli leikskóla á höfuðborgarsvæðinu og skemmt þar börnum og búaliði, er sem sagt kominn í heimsókn í Tjarnarbíó. Kannski hafa Brúðubíllinn og áhöfn hans margsinnis áður komið í það hús til að sýna börnum og fullorðnum listir sínar. Það bara veit ég ekki frekar en svo margt annað í sögu brúðuleikhúss á Íslandi. Samt þykist ég vita að sú merka saga hefur hvorki verið rannsökuð né skráð að neinu marki og það er löngu orðið tímabært að einhver dugmikill fræðimaður, fræðikvár eða fræðikona skoði þá sögu og segi okkur hana í fræðibókum eða ritgerðum. Kannski líka í sjónvarpsþáttum eða útvarpi. Þótt ég viti ekki mikið um efnið get ég lofað því að þarna er margt skemmtilegt að skoða og rifja upp. Nafn og verk Jóns Eyþórs Guðmundssonar, sem var frumkvöðull í leikbrúðugerð og brúðuleikhúsi hérlendis, má ekki gleymast. Sem gæti gerst þótt hann hafi um skeið verið forseti UNIMA, alþjóðasamtaka um brúðuleikhús. Leikbrúðusnillinganna fjögurra sem árum saman sýndu fjölbreytt verk sín undir nafni Leikbrúðulands er líka vert að minnast og ég hlýt að nefna Messíönu Tómasdóttur sem sett hefur mikinn svip á þessa tegund leikhúss hérlendis. Marga fleiri væri vert að nefna en ég veit bara svo fátt og lítið um sögu íslensks brúðuleikhúss að ég læt hér staðar numið. Hitt veit ég að á sýningu Brúðubílsins í Tjarnarbíói á sunnudegi milli stórhátíða voru áhorfendur á öllum aldri. Þarna voru ömmur og afar með barnabörnin, þarna voru pabbar og mömmur með börnin sín. Ég sá meira að segja tvö mæðgnapör meðal áhorfenda sem ekki voru með nein börn með sér á sýningunni. Svona á þetta að vera. Brúðuleikhús er nefnilega fyrir alla óháð aldri en það er gott að geta vakið upp barnið í sjálfum sér þegar maður horfir á sýningu eins og blasti við augum af sviðinu í Tjarnarbíói á þessu þokumyrka sunnudagssíðdegi. Mikið sem það var notalegt að geta komið úr suddanum fyrir utan inn í birtuna og ylinn í forsölum þess sögufræga leikhúss, Tjarnarbíós, sem eru ekkert óskaplega stórir en afskaplega vistlegir. Gott að koma þangað inn og geta látið sig hlakka til að hitta Lilla apa, Svarta Sval, Blúndu, Hanann og Robba rostung að ógleymdum varðhundinum Seppa sem ekki kann að gelta og trúðnum sem heitir Dúskur. Dúskur trúður var ekki bara í mjög fallegum búningi heldur líka svona ljómandi fimur að stökkva heljarstökk og sýna aðrar fimleikakúnstir sem ég kann varla að nefna. Ég held ég fari rétt með að það sé Lárus Blöndal sem líka heitir Lalli töframaður sem kom þarna fram í gervinu hans Dúsks og reyndar margra fleiri karaktera. Lalli töframaður gerði þetta allt skínandi vel og sama er að segja um Hörð Bent Steffensen sem stjórnaði líka brúðum í sýningunni. Kannski Hörður Steffensen hafi einnig verið einhver af lifandi leikbrúðunum, ekki alltaf auðvelt að segja til um hver leyndist undir vel gerðum gervum úlfa, hunda, kolkrabba og annarra lifandi kvikinda sem spígsporuðu um sviðið í Tjarnarbíói. Þetta var allt ágætlega gert og vel af hendi leyst en mér fannst samt mýsnar skemmtilegastar. Þær sögðu ekki margt og voru ekkert að grípa mikið fram í fyrir öðrum karakterum en reyndust vera svo flinkir sviðsmenn að þær léku sér að því að skipta um stemningsmyndir á sviðinu milli atriða. Það fannst mér alger unun á að horfa. Þessi einföldu senuskipti tókust mjög vel en það var á mörkunum að þau nytu sín til fulls á sviðinu í Tjarnarbíói sem varð allt í einu svo voðalega stórt þegar leikhús litla Brúðubílsins var komið þangað inn. Það er skrítið að segja þetta en þessi stærð á litla Tjarnarbíói skemmdi svolítið fyrir mjög nettri sýningu Brúðubílsins. Kannski var þetta mér sjálfum að kenna því að ég var of óframfærinn til að tylla mér á sviðsgólfið eins og minnstu börnunum í salnum var boðið að gera í upphafi sýningar. Skrítið að maður skuli ekki vera tilbúinn til þess að sýna litla barnið innan í sér. Mjög einkennilegt reyndar því að kannski er þetta litla barn það dýrmætasta sem við eigum vegna þess að það varðveitir fyrir okkur ímyndunaraflið. Helga Steffensen og Brúðubíllinn hennar hafa hjálpað mörgum kynslóðum að rækta og örva þennan dýrmæta eiginleika, ímyndunaraflið, og fyrir það á Helga miklar þakkir skildar. En fyrir minn smekk var handritið að sýningunni í Tjarnarbíói of litað af svolítilli kennsluáráttu. Börn mega alveg fá svolitinn frið frá því að það sé alltaf stöðugt verið að kenna þeim hvað litirnir heita og hvernig maður telur upp að tíu eða tuttugu og hvað tærnar eru margar. Það er fullt af fólki úti um allan bæ og þorpagrundir sem lætur þess háttar fróðleik dynja á blessuðum börnunum allan guðslangan daginn. Mér finnst að þau megi alveg fá pásu frá þessum kennslukomplex okkar fullorðna fólksins þegar þau fara í leikhús. Annars var þetta hin skemmtilegasta sýning og hélt athygli flestra áhorfenda. Samt get ég ekki stillt mig um að ítreka það sem ég áður sagði og gerist svo djarfur að stela replikku frá Geirþrúði mömmu hans Hamlets sem segir við Póloníus pabba hennar Ófelíu: Minni list, meira efni. Þessa setningu umorða ég fyrir Brúðubílinn og hvísla í hans eyra: Minni kennslu, meira sprell og töfra. Og fleiri ofurflinkar mýs. Þannig lifir Brúðubíllinn best og lengst og hann er ómissandi í ímyndunaruppeldi barna á öllum aldri. Að lokum – elsku Tjarnarbíó, ekki fleiri kynningartexta með jafn óskaplega mörgum ritvillum og klisjukenndum endurtekningum eins og blasa við af skjánum þegar maður gúgglar sýningu Brúðubílsins. Þetta segi ég ekki bara vegna þess að ég sé haldinn ólæknandi kennslukomplex. Svona óvandaður texti og frágangur er óvirðing við áhorfendur og listamennina sem unnu að sýningunni. Trausti Ólafsson, leikhúsrýnir í Víðsjá, rýnir í nýja sýningu Brúðubílsins sem var frumsýnd í Tjarnarbíói um jólin, í leikstjórn Harðar Bents Steffensen og Lárusar Blöndal. Trausti Ólafsson er leikhúsfræðingur og leikstjóri. Hann hefur kennt námskeið um leikhús og leikbókmenntir við Háskóla Íslands frá 2004 og við Listaháskóla Íslands frá 2015. Trausti hefur gefið út bækur um leiklist bæði hérlendis og erlendis. Hann hefur einnig birt greinar í ritstýrðum alþjóðlegum tímaritum auk greinaskrifa í íslenskum tímaritum.