Grænlenski utanríkisráðherrann Vivian Motzfeldt segir afdráttarlaust að landið sé ekki til sölu. Í samtali við KNR segist hún ætla að koma þeim skýru skilaboðum til dansks og bandarísks kollega síns á fundi í næstu viku, þeirra Lars Løkke Rasmussen og Marco Rubio. Sá síðastnefndi boðaði til fundarins en Motzfeldt kveðst ekki geta upplýst nákvæmlega hvar eða hvenær hann verður. Donald Trump hefur ítrekað sagt Bandaríkin þarfnast Grænlands af öryggisástæðum og hefur ekki útilokað beitingu hervalds. Ekki nægi að fá meiri hernaðaraðstöðu þar. Grænland er amt innan NATÓ-ríkisins Danmerkur. Motzfeldt segir stöðuna snúna, þótt almenn andstaða Grænlendinga hafi alltaf komið skýrt fram. Motzfeldt vill líka fá frið til að koma þeirri afstöðu á framfæri á fundinum. „Þetta snýst um Grænland og landfræðilega stöðu þess. Samtal okkar þarf að byggja á virðingu fyrir alþjóðalögum, mannréttindum og skilningi á rétti Grænlendinga til að móta eigin framtíð,“ segir Motzfeldt. Hún kveðst jafnframt vilja að landið fái aukinn sjálfsákvörðunarrétt en samkvæmt stjórnarskrá annast Danmörk utanríkismál fyrir þess hönd. Motzfeldt kveðst vongóð um jákvæða niðurstöðu af fundinum og leggur áherslu á mikilvægi góðrar og gagnkvæmrar samvinnu Bandaríkjanna og Grænlands. Grænlendingar allir þurfi að hverfa að nýju til öruggs og eðlilegs lífs og Motzfeldt hyggur að það gerist fljótlega. Hún ætli að koma Rubio í skilning um að lífið á norðurslóðum byggi á sæmd ásamt góðri og öruggri sambúð allra sem þar búa.