Eldurinn í Breiðholti í sama húsi og fyrir viku síðan

Þrír karlmenn voru handteknir í nótt grunaðir um íkveikju í Breiðholtinu. Eldur kviknaði í sama einbýlishúsi í Brúnastekk og fyrir viku síðan. Mennirnir þrír, sem eru á heldur víðu aldursbili frá þrítugsaldri og að fimmtugu, voru látnir lausir að yfirheyrslum loknum. Skúli Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu staðfestir þetta. Hann segir að væntanlega verði rannsakað hvort tengsl séu á milli eldsvoðanna tveggja. „Upptök virðast vera þarna í herbergi sem er með þeim hætti að það kemur grunur um íkveikju,“ segir Skúli í viðtali við fréttastofu. Lögreglu barst tilkynning um eldsvoðann í Brúnastekk klukkan 4 í nótt. Að sögn Skúla er útlit fyrir að einbýlishúsið sé í útleigu til margra aðila, þ.e. að stök herbergi séu til leigu. Hann segir mennina þrjá búa í húsinu en að íbúar séu þó fleiri. Skúli segir að einn mannanna þriggja hafi ekki fylgt fyrirmælum lögreglu á vettvangi. Eldsvoðinn í Brúnastekk er einn af tveimur sem lögregla og slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu brugðust við í nótt. Einnig kviknaði eldur í íbúð við Háaleitisbraut þar sem fimm manna fjölskylda er til húsa. Mikill reykur kom upp í íbúðinni og tvö voru flutt á bráðamóttöku til aðhlynningar vegna reykeitrunar. Þeim var lofað að fara að skoðun lokinni. Lögreglu barst tilkynning um eldinn í Háaleiti klukkan 02:35 í nótt. Um hálftíma síðar hafði slökkvilið ráðið niðurlögum eldsins og afhenti lögreglu vettvanginn. Skúli segir útlit fyrir að eldsupptök hafi verið í einu svefnherbergjanna en ekki er grunur um íkveikju í því tilfelli. Ekki er búandi í íbúðinni að svo stöddu. Tæknideild og rannsóknarlögregla fóru á vettvang í nótt en frekari rannsóknir á eldsupptökum eiga eftir að fara fram.