Finnur Bjarnason hefur verið skipaður í embætti óperustjóra til fimm ára, frá og með 15. janúar. Þetta er í fyrsta sinn sem skipað er í embættið. Ellefu umsóknir bárust um stöðuna en fjórir umsækjendur voru boðaðir í viðtöl eftir álitsgerð hæfisnefndar. Jóhann Páll Jóhannsson var settur ráðherra menningarmála við ráðninguna í stað Loga Einarssonar, sem lýsti sig vanhæfan. Ástæðan var sú að Finnur var ráðinn verkefnisstjóri hjá ráðuneytinu vegna stofnunar þjóðaróperunnar og því unnið með ráðherra. Jóhann Páll tók sjálfur viðtöl við þá fjóra umsækjendur sem þóttu hæfastir og segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að Finnur hafi uppfyllt best þær hæfniskröfur sem tilgreindar voru. „Finnur Bjarnason hefur meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og tvö lokapróf á meistarastigi; Postgraduate Diploma Vocal Training og nám í óperuflutningi (Opera Course) við Guildhall School of Music & Drama. Finnur stundaði framhaldsnám við National Opera Studio í London og hefur lokið burtfararprófi í söng frá Tónskóla Sigursveins. Finnur hefur staðgóða reynslu og þekkingu á vettvangi óperulista og var fastráðinn við óperur bæði í Englandi og Þýskalandi en þess utan sungið við óperuhús víða um heim. Í gegnum störf sín hefur Finnur öðlast mikilvæga innsýn inn í starfsemi óperuhúsa,“ segir í tilkynningunni.