Augu Bandaríkjastjórnar beinast meðal annars að auðlindum Grænlands þar sem finnast margir mikilvægir verðmætir málmar til að notkunar í hátækniframleiðslu. Amaroq er skráð í kauphöll Nasdaq á Íslandi. Stærstu einstöku hluthafar í Amaroq eru lífeyrissjóðir. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er þriðji stærsti hluthafinn með rúm fjögur prósent og sá fjórði stærsti er Gildi með tæp fjögur. Íslenskir lífeyrissjóðir og tryggingafélög eiga samanlagt um 20 prósent í Amaroq og íslenskir fjárfestingasjóðir og einkafjárfestar um 30 prósent. Á fimmtudaginn tilkynnti Amaroq í kauphöllinni að gullframleiðsla í námu fyrirtækisins syðst á Grænlandi hafi verið 6.600 únsur hærra en miðgildi framleiðslumarkmiðs fyrirtækisins á árinu. Fyrsti áfangi vinnslu í námunni hófst í fyrra. Eldur Ólafsson forstjóri námafyrirtækisins Amaroq sagði í viðtali á bandaríska fjölmiðlinum CNBC á fimmtudaginn að Bandaríkjastjórn væri að velta fyrir sér að fjárfesta í námavinnslu Amaroq. Þar kemur fram að viðræður séu í gangi á milli Bandaríkjastjórnar og Amaroq um hugsanleg fjárfestingatækifæri. Samningarnir gætu falið í sér kaupskyldu á málmum, innviðastuðning og lánalínur er haft eftir Eldi. Sama dag og viðtalið var birt á netinu og jákvæð tilkynning kom um gullið í Kauphöllinni hækkaði gengi hlutabréfa í Amaroq um nærri 20 prósent. Síðustu þrjá mánuði hefur gengi Amaroq hækkað um 37 prósent og 54 prósent síðasta hálfa árið. Árshækkun bréfa í Amaroq nemur þó aðeins einu prósenti. Í nóvember tilkynnti Amaroq að sýnatökur úr námu fyrirtækisins á vestanverðu Grænlandi sýndu hátt hlutfall af germaníum, gallíum og kadmíum. Þessir málmar væru skilgreindir sem þjóðaröryggis-málmar af Bandaríkjunum og Evrópusambandinu.