Stjórnvöld í Íran segjast vera reiðbúin til að hlusta á fólkið í landinu og segja mótmælendur reyna að eyðileggja allt samfélagið. Þetta sagði forseti landsins í sjónvarpsviðtali í dag. Óvinir Írans reyna að skapa ringulreið og óreiðu í landinu Masoud Pezeshkian, forseti Írans, segir hryðjuverkamenn með tengsl við erlend stjórnvöld hafa drepið fólk, kveikt í moskum og unnið skemmdir á almannaeignum í mótmælum sem hafa staðið í landinu síðan 28. desember. Þetta kom fram í sjónvarpsviðtali við hann í ríkisfjölmiðli Írans í dag. Pezeshkian sagði óvini Írans vera að reyna skapa ringulreið og óreiðu með því að fyrirskipa mótmælin. Í viðtalinu sagði hann þó einnig að stjórnvöld væru reiðbúin til þess að hlusta á fólkið í landinu. Ríkisstjórnin væri staðráðin í því að leysa efnahagsleg vandamál landsins og hann hvatti almenna borgara til að fjarlægjast mótmælendur, sem hann sagði vera óeirðaseggi og hryðjuverkamenn. Þeir væru að reyna að eyðileggja allt samfélagið. Pezeshkian er ekki eins valdamikill og æðsti klerkurinn Ayatollah Ali Khamenei þó hann sé með einhver völd. Khamenei getur tekið fram fyrir hendurnar á forsetanum og ákvörðunum sem hann tekur. Minnst 192 verið drepnir síðan mótmælin hófust BBC birti myndbönd sem það hefur staðreynt og hefur eftir sjónarvottum að öryggissveitir taki á mótmælendum með meiri hörku. Ríkissaksóknari Írans sagði alla þá sem taka þátt í mótmælunum vera óvini guðs, ásökun sem getur leitt til dauðarefsingar. BBC hefur eftir heimildarmönnum að yfir hundrað manns hafi látið lífið, þar á meðal meðlimir öryggissveita stjórnvalda. Samkvæmt mannréttindasamtökunum Iran Human Rights sem starfa í Noregi, hafa að minnsta kosti 192 verið drepnir síðan mótmælin hófust. Persneska útgáfa BBC hefur staðfest að 70 lík hafi verið flutt á eitt sjúkrahús í borginni Rasht, sem er í norðurhluta landsins, á föstudagskvöld og að að minnsta kosti 38 hefðu látist á sjúkrahúsi í höfuðborginni Teheran. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað lýst yfir stuðningi við mótmælendur í Íran, eins utanríkisráðherrann Marco Rubio og fleiri ráðamenn. Margir þeirra hafa sagt hjálp væntanlega án þess að tíunda frekar hvers eðlis hún væri. New York Times segir forsetann vera að íhuga árásir á borgaralega innviði í Teheran.