Maður lést í vinnuslysi á Hvolsvelli í gær. Málið er til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurlandi. Þetta staðfestir Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri. Þorsteinn segir að tilkynning um slysið hafi borist rétt eftir hádegi. Lögregla, sjúkraflutningamenn og slökkvilið hafi verið kallað út. Maðurinn hafi reynst látinn þegar fyrstu viðbragðsaðilar mættu á vettvang. Þorsteinn segist ekki geta sagt til um tildrög slyssins. Upplýsingaöflun sé í fullum gangi, en rannsókn sé skammt á veg komin.