Formaður spretthóps borgarinnar í leikskólamálum gerir ráð fyrir að Reykjavíkurleiðin verði kynnt á næstu vikum. Hún hafnar því að ósætti innan stjórnmálaflokka og sveitarstjórnarkosningarnar í vor hafi haft áhrif á vinnu spretthópsins. „Við höfum tekið við öllum ábendingum, við sendum þetta í samráðsgátt og erum búin að vinna úr athugasemdum. Staðan er þannig að núna er þetta í jafnréttismati,“ segir Líf Magneudóttir, formaður spretthóps borgarinnar í leikskólamálum og borgarfulltrúi. Segir seinagang ekkert með flokkapólitík eða sveitastjórnakosningar að gera Í hádegisfréttum í gær var rætt við Önnu Margréti Ólafsdóttur, leikskólastjóra Nóaborgar, sem gagnrýndi tafir á verkefninu. Hún sagði starfsfólk langeygt eftir breytingum, sem lofað hafi verið í lok síðasta árs. Þá sagðist hún óttast að flokkapólitík og yfirvofandi sveitarstjórnarkosningar yrðu til þess að fallið yrði frá Reykjavíkurleiðinni. Líf hafnar þessari gagnrýni. „Nei, það hefur ekkert með þetta mál að gera.“ Hún segir að hugsa þurfi um hagsmuni barna og starfsfólks fyrst og fremst. „Og hvernig við getum sem best komið til móts við þau. Og auðvitað eru þetta líka hagsmunir foreldra á vinnumarkaði, einstæðra foreldra, foreldra með lítið bakland. Þannig við erum búin að vera að reyna að ganga þessa línu og huga að hagsmunum allra. Og þetta hefur bara tekið sinn tíma.“ Leikskólastarfsfólk þurfi ekki að örvænta Líf segir að leikskólastarfsfólk þurfi ekki að örvænta. „Við munum væntanlega og vonandi þegar þetta kemur úr jafnréttismati, þá þurfum við kannski að endurskoða eitt og annað. En við munum vonandi kynna breytta leið vonandi í lok mánaðarins eða í lok febrúar.“ Hún segir nákvæma tímalínu óljósa enn sem komið er. Reykjavíkurleiðin taki gildi um leið og tillögurnar verði samþykktar. „Við erum auðvitað bara þverpólitískur hópur. Við erum mörg í honum. Við þurfum bara að ræða þetta vandlega í borgarstjórn. En ég vona svo innilega að við séum að leggja fram tillögur sem skipta máli fyrir menntun ungra barna og að það ríki sátt um þær,“ segir Líf og bætir við. „Eins og staðan er núna er ekki í boði að gera ekki neitt. Við verðum að bregðast við þessu ákalli frá gólfinu.“