Dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga konu í gestaherbergi

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun í apríl árið 2024. Hann var dæmdur til að greiða konunni 1,6 milljónir í bætur. Atvikið átti sér stað í gestaherbergi á heimili mannsins og sambýliskonu hans, sem var vinkona konunnar. Hún var sofandi í húsinu þegar brotið átti sér stað og bar vitni fyrir dómi að maðurinn hefði ekki verið sofandi við hlið hennar þegar hún vaknaði um morguninn. Samkvæmt lýsingum á málsatvikum var brotaþoli gestkomandi á heimilinu og hafði lagst til svefns eftir skemmtun um kvöldið. Um nóttina hafi hún orðið vör við að maðurinn skreið upp í til hennar og orðið hrædd. Hennar fyrstu viðbrögð hafi verið að þykjast sofa. Hún hafi einungis verið klædd í nærbol og ber að neðan. Hann hafi komið að henni og reynt að þrýsta lim sínum inn í endaþarm hennar. Hún hafi þá snúið sér frá og enn látist sofa en hann þá reynt aftur það sama, en ekki tekist að hefja samfarir. Hún hafi þá staðið upp úr rúminu og maðurinn ekki reynt að hindra för hennar. Konan náði þá að fara á neðri hæð hússins til að hringja í vini sína til að fá aðstoð. Dómstóllinn mat frásögn konunnar trúverðuga og taldi sannað að maðurinn hefði komið ölvaður í gestaherbergið á annarri hæð hússins og viðhaft kynferðislega háttsemi í trássi við vilja konunnar. Var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi, en dómurinn var kveðinn upp um miðjan síðasta mánuð.