Enska bikarkeppnin í fótbolta hélt áfram í dag og Manchester United tók á móti Brighton. Darren Fletcher stýrir Manchester United til bráðabirðga eftir að Ruben Amorim var látinn axla sín skinn. Þessar mannabreytingar löguðu gengi United þó ekki í dag. Brajan Gruda kom Brighton yfir á Old Trafford í bikarnum í dag í 1-0 á tólftu mínútu. Á 64. mínútu átti Gruda svo stoðsendingu á Danny Welbeck fyrrverandi leikmann United sem kom Brighton þar með í 2-0. Engu skipti þó Benjamin Sesko lagaði stöðuna í lokin fyrir heimamenn í 2-1. Brighton vann leikinn og Manchester United er úr leik í bikarnum. Portsmouth byrjaði vel gegn Arsenal Portsmouth sem leikur í næstefstu deild Englands lét topplið úrvalsdeildarinnar, Arsenal hafa fyrir sér. Leikið var á Fratton Park heimavelli Portsmouth og heimamenn byrjuðu leikinn svo sannarlega vel því strax á þriðju mínútu leiksins kom Colby Bishop Portsmouth yfir í 1-0. En enginn verður óbarinn biskup og Andre Dozzell skoraði sjálfsmark fimm mínútum síðar fyrir heimamenn og þar með var staðan orðin jöfn, 1-1. Þetta mark trekkti Arsenal-menn upp og Gabriel Martinelli kom Lundúnaliðinu yfir í 2-1 með marki á 25. mínútu. Arsenal fékk svo vítaspyrnu áður en fyrri hálfleikur var á enda og það kom í hlut Noni Madueke að taka hana. Þrátt fyrir að senda markvörðinn í rangt horn brenndi Madueke af og 2-1 stóð í hálfleik. Það var þó skammt liðið af seinni hálfleiknum þegar Gabriel Martinelli bætti þriðja marki Arsenal við eftir undirbúning Gabriel Jesus. Það var svo Madueke sem átti stoðsendinguna þegar Martinelli skoraði næst. Þrenna hjá Gabriel Martinelli og Arsenal vann leikinn 4-1 og er komið áfram í næstu umferð bikarkeppninnar. Öll úrslit dagsins má finna hér.