Golden Globe-verðlaunin haldin í skugga óvissu í kvikmyndaiðnaðinum

Golden Globe-verðlaunahátíðin er þekkt fyrir að vera eitt af bestu partíum ársins í Hollywood. Þar er nóg veitt í mat og drykk sem skapar oft eftirminnileg augnablik og sumar stjörnur leyfa sér að sletta rækilega úr klaufunum. Sumir kalla Golden Globes drukkna frænda Óskarsins. Hátíðin er haldin í 83. sinn í kvöld á Beverly Hilton-hótelinu í Hollywood en hvort stemningin verði mikil á eftir að koma í ljós. Mikil óvissa vofir yfir kvikmyndaiðnaðinum vegna sölu á Warner Bros.. Einnig er líklegt að stirt andrúmsloft í Bandaríkjunum í tengslum við vendingar á hinu pólitíska sviði eigi eftir að hafa áhrif. Leo, ísjakarnir eru á leiðinni Þrátt fyrir óvissuna og ringulreiðina í bandarískum stjórnmálum eru skipuleggjendur hátíðarinnar hvergi af baki dottnir. Grínistinn Nikki Glaser er aftur kynnir á hátíðinni en hún sló eftirminnilega í gegn í fyrra. Í viðtali við The Associated Press í vikunni sagðist hún enn vera að smíða hinn fullkomna brandara um leikkonuna Juliu Roberts, sem er tilnefnd fyrir bestan leik í aðalhlutverki fyrir kvikmyndina After the Hunt. Hún situr beint fyrir framan Glaser þegar hún flytur opnunarræðuna. „Mig langar bara að segja hinn fullkomna brandara en það er eins og fólk hafi ekki skopskyn þegar kemur að Juliu Roberts. Hún verður sátt en ég er ekki viss um að annað fólk verði það fyrir hennar hönd. Ég sagði mjög saklausan brandara um hana þegar ég var að prófa efnið og fólk baulaði.“ Glaser fær tækifæri til að bauna á fleiri stórstjörnur. Timothée Chalamet er tilnefndur fyrir leik í Marty Supreme, George Clooney fyrir Jay Kelley og Leonardo DiCaprio fyrir One Battle After Antoher. „Leo, já, Leo. Við ætlum að skjóta á Leo. Ísjakarnir eru á leiðinni, passaðu þig.“ One Battle After Another sigurstranglegust One Battle After Antoher er með flestar tilnefningar eða 9 níu talsins. Næst á eftir henni kemur norska myndin Sentimental Value með 8 og Sinner með 7 tilnefningar. One Battle After Another hefur unnið nánast öll verðlaun sem kvikmyndin hefur verið tilnefnd til, til þessa, og þykir líklegust til að hreppa Óskarsverðlaunin. Tilnefningar til Óskarsverðlauna verða tilkynntar 22. janúar. Myndin þykir sigurstranglegust í kvöld. Hún fjallar um fyrrum uppreisnarmann sem lifir í felum utan alfararleiðar. Hann er haldinn stöðugu ofsóknaræði og býr með ákveðinni unglingsdóttur sinni. Þegar illur erkióvinur birtist eftir 16 ár og rænir stúlkunni, þarf maðurinn að gera allt sem hann getur til að finna hana og fær hjálp hjá félögum sínum í andspyrnuhreyfingunni. Paul Thomas Anderson leikstýrir myndinni og Leonardo DiCaprio, Benicio Del Toro og Sean Penn fara með aðalhlutverk. DiCaprio og Chase infiniti eru tilnefnd fyrir aðalhlutverk, og Penn, Del Toro og Teyana Taylor fyrir aukahlutverk. Anderson er einnig tilnefndur fyrir leikstjórn og handrit. Vampírumyndin Sinners, sem fjallar um tvíburabræður í leit að betra lífi sem snúa aftur í gamla heimabæinn þar sem þeirra býður meiri illska en þeir hafa áður kynnst, gæti einnig hreppt nokkur verðlaun. Þar sem hún keppir í flokki dramamynda en ekki gamanmynda eins og One Battle After Another þykir líklegt að hún sópi að sér verðlaunum. Þó er ströng samkeppni frá Hamnet og norsku myndinni Sentimental Value. Hlaðvörp verðlaunuð í fyrsta sinn Pete Hammond, yfirgagnrýnandi hjá fjölmiðlinum Deadline, segir í samtali við AFP-fréttaveituna að DiCaprio sé líklegastur til að hreppa verðlaunin fyrir bestan leik í aðalhlutverki í gaman- eða söngvamynd en að aðalsamkeppnin verði frá Chalamet. Sigur á Golden Globe gæti veitt honum þann skriðþunga sem þurfi til að stoppa Chalamet fyrir Óskarsverðlaunin. Teyana Taylor, sem leikur einnig í One Battle After Another, gæti ýtt undir svipaðan skriðþunga fyrir komandi verðlaunahátíðir eins og BAFTA og Óskarsverðlaunin. Hún er tilnefnd fyrir bestan aukaleik í gaman- eða söngvamynd. Ariana Grande gæti þó hrifsað verðlaunin fyrir leik í framhaldsmyndinni af Wicked, Wicked: For Good. Einnig er samkeppni frá Amy Madigan sem er tilnefnd fyrir leik sinn í Weapons. Í dramaflokknum er mest samkeppni milli Sinners og Hamnet. Hammond segir það merki um alvöru breytingar ef Sinners vinni til verðlauna. Áður fyrr hafi meðlimir samtakanna sem halda Golden Globe-verðlaunin ekki haft áhuga á sögum fólks sem er dökkt á hörund. Nú gæti öldin verið önnur. Hátíðin kynnti einnig nýjan verðlaunaflokk í ár, besta hlaðvarpið. Þar þykir Good Hang, hlaðvarp leikkonunnar Amy Poehler, líklegasti sigurvegarinn. Armchair Expert with Dax Sheperd hlaut einnig tilnefningu, eins Call Her Daddy, The Mel Robbins Podcast, SmartLess og Up First. Athöfnin hefst klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma.