Tveir voru handteknir á Selfossi í dag í aðgerð Lögreglunnar á Suðurlandi sem naut liðsinnis sérsveitar ríkislögreglustjóra. Þetta staðfestir Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri. Talið var æskilegt að óska eftir aðstoð sérsveitarinnar í ljósi tilkynningar sem lögreglunni barst. Ekki liggur fyrir hvers eðlis hún var en Þorsteinn staðfestir að enginn var sendur til aðhlynningar á sjúkrahúsi í tengslum við málið. Helena Rós Sturludóttir, upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra, staðfestir að fjórir sérsveitarbílar voru sendir á vettvanginn. Hún segir aðgerðina hafa gengið vel. Ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra kom staðarlögregla og rannsóknardeild að aðgerðinni. Málið er til rannsóknar.