Atlantshafsbandalagið á að bregðast við, ekki Bandaríkin, standi Grænlandi ógn frá Rússum. Þetta sagði Johann Wadepuhl, utanríkisráðherra Þýskalands, þegar hann ávarpaði blaðamenn ásamt Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í kvöld. Hann fundaði með Þorgerði á Keflavíkurflugvelli síðdegis. „Við verðum að ræða þessi mál og vandamál innan NATO-rammans. Ef Bandaríkjaforseti lítur á hvaðan ógnirnar koma, frá rússneskum eða kínverskum skipum eða kafbátum á svæðinu, getum við fundið svör við því í sameiningu – en á vettvangi NATO. Ef málið snýst um landaforráð og fullveldi er alveg ljóst að það eru Grænlendingar sem þurfa að ákveða framtíð Grænlands, og það er spurning sem konungsríkið Danmörk þarf að svara,“ sagði Wadepuhl á blaðamannafundinum. Þýski utanríkisráðherrann kom við á Íslandi á leið sinni til Washington í Bandaríkjunum, þar sem hann á fund með Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Utanríkisráðherrar Grænlands, Bandaríkjanna og Danmerkur eiga svo fund í Washington á næstu dögum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fundaði með utanríkisráðherra Þýskalands í dag. Utanríkisráðherrarnir segja mikilvægt að standa vörð um alþjóðalög, lýðræði og friðhelgi landamæra. Ræddu um öryggisráðstafanir í Norður-Atlantshafi Þau Wadepuhl og Þorgerður Katrín ræddu á fundi sínum um þróun heimsmálanna, öryggisráðstafanir í Norður-Atlantshafi og Grænland. „Við erum sammála um að það skipti máli bæði að Evrópa standi saman en líka að við gerum það sem hægt er til þess að varðveita áfram og styrkja tengslin vesturyfir, hvort sem það er við Bandaríkin eða Kanada,“ sagði Þorgerður Katrín í viðtali við fréttastofu eftir blaðamannafundinn. „Við ræddum einfaldlega það sem meðal annars samir okkur mjög, þessar vinaþjóðir, Ísland og Þýskaland, og það er að undirstrika virðingu við alþjóðalög, lýðræði, frelsi, mannréttindi, friðhelgi landamæra, sjálfsákvörðunarrétt þjóða og það á auðvitað meðal annars við Grænland.“ Stjórnarandstaðan gagnrýnir að orð Trumps séu tekin bókstaflega Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt að ríkisstjórnin taki hótanir Donalds Trumps Bandaríkjaforseta of bókstaflega. Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, segir Trump setja þessar hótanir fram til að stuða og að það beri að taka þeim alvarlega en ekki bókstaflega. „Mér heyrist nú reyndar á Grænlendingum og Dönum að þeir séu mjög áfram um það að ná samkomulagi við Bandaríkjamenn um aukna viðveru á Grænlandi. Þannig að ég held að það þurfi ekkert að fara í miklar viðræður um það,“ segir Sigríður. Hún bætir því við að grænlensk stjórnvöld hafi ekki strax látið í sér heyra. Allir grænlenskir stjórnmálaflokkar sendu frá sér yfirlýsingu á föstudag þar sem Bandaríkin voru beðin um að hætta að lítilsvirða landið. „Það hefði kannski verið nær fyrir marga hér á Íslandi að bíða eftir slíkri yfirlýsingu og þessum fundi sem utanríkisráðherra Grænlands á með utanríkisráðherra Bandaríkjanna núna í vikunni, það verður auðvitað mjög spennandi að heyra hvað þeim mun fara á milli.“ Þorgerður Katrín utanríkisráðherra segir að sér finnist miður að sumir íslenskir þingmenn lýsi ekki yfir stuðningi við Grænlendinga með afgerandi hætti. „Ef við gerum það ekki erum við ekki að standa með sjálfum. Það er Grænlendinga að ákveða hver framtíð þeirra er og þeir þurfa að fá þessi skýru skilaboð frá okkur,“ sagði Þorgerður Katrín við fréttastofu.