Íranar hafa varað við hefndaraðgerðum geri Bandaríkin árásir á landið vegna mótmæla sem geisað hafa þar í tvær vikur. Þeir hafa sagt Bandaríkin og Ísrael lögmæt skotmörk verði af árásunum. Forseti Írans sakar Bandaríkin og Ísrael um að standa fyrir mótmælunum. Yfirvöld í Íran segjast hafa handtekið skipuleggjendur mótmæla sem verið hafa í landinu síðan 28. desember. Klerkastjórnin lét loka fyrir Internetið að nær öllu leyti á fimmtudagskvöldið og mannréttindasamtök telja að hún nýti sér það til að berja niður andófið. Samtökin Iran Human Rights, sem starfa í Noregi, segja að að minnsta kosti 192 hafi verið drepnir síðan mótmælin hófust. Samkvæmt BBC hefur starfsfólk á tveimur sjúkrahúsum staðfest að rúmlega hundrað lík hafi verið flutt þangað síðustu tvo daga. Samtökin Human Rights Activist News Agency, sem starfa í Bandaríkjunum, segjast hafa staðfest að 490 mótmælendur hafi látið lífið og 48 fulltrúar öryggissveita stjórnvalda. Óttast er að fjöldi látinna sé enn hærri. Samtökin segja einnig að tæplega ellefu þúsund manns hafi verið handteknir síðustu tvær vikur. Íranar eru æfir og heita hefndum ef Bandaríkjamenn gera árásir á landið. Bæði Bandaríkin og Ísrael séu lögmæt skotmörk verði af árásunum. Nokkur hundruð manns hafa látist í mótmælunum sem hafa varið í tvær vikur. Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað hernaðaríhlutun ef írönsk stjórnvöld drepa mótmælendur. Íranir eru æfir yfir þessum hótunum og hafa sagt Bandaríkin og Ísrael lögmæt skotmörk verði af árásunum. Masoud Pezeshkian, forseti Írans, sagði í viðtali við ríkisfjölmiðil Írans í dag að stjórnvöld hefðu skyldu til að taka á efnahagsástandinu en kallaði mótmælendur uppreisnarseggi. „Við biðjum okkar ágæta fólk, eins og við höfum áður gert, að koma saman í sínum hverfum og ekki leyfa þessum einstaklingum að skapa glundroða. Fólk verður að vera á sínum stað. Ef fólk hefur áhyggjur er það skylda okkar að taka á þeim áhyggjum. Æðri skylda okkar er þó ekki að leyfa hópi óeirðaseggja að koma og eyðileggja þjóðfélagið í heild sinni.“