Stjarnan skildi Grindavík eftir í reyknum og flaug inn í undanúrslit bikarsins

Stjarnan tók á móti Grindavík í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í körfubolta í kvöld. Þar voru heimamenn umtalsvert sterkari og unnu loks 23 stiga sigur 100-77. Stjarnan setti tóninn strax í fyrsta leikhluta þar sem liðið spilaði afar vel. Stjarnan tók fram úr og var komin átta stigum yfir eftir þriggja mínútna leik, 13-5. Ólafur Ólafsson náði að jafna leikinn 16-16 en þaðan hrukku Stjörnumenn aftur í gír og liðið leiddi með 12 stigum að loknum fyrsta leikhluta, 32-20. Lítið gekk hjá Grindvíkingum að vinna upp muninn og raunar jókst hann enn fremur. Bjarni Guðmann Jónsson skellti í þrist fyrir Stjörnuna þegar skammt var eftir af öðrum leikhluta, 53-28. Hálfleikstölur, 57-31 Stjörnunni í vil. Grindvíkingar spyrntu við í þriðja Þá var ljóst að Grindvíkingar þurftu að safna sér saman í leikhléi og liðið virtist hafa fundið baráttuandann. Liðið minnkaði muninn í 11 stig um miðjan þriðja leikhluta, 64-53 eftir virkilega góða syrpu. En Stjarnan náði sér þó aftur á strik og Giannis Agravanis kom liðinu í 20 stiga forskot á ný með þristi í síðustu körfu þriðja leikhluta, 78-58. Það forskot dugði Stjörnunni til sigurs því 23 stigum munaði á liðunum við leikslok, 100-77. Liðin mættust síðast í deildinni í desember þar sem Stjarnan burstaði Grindavík, 118-67 en það er jafnframt eini tapleikur liðsins það sem af er tímabilinu í deildinni. Hilmar Smári Henningsson gekk í raðir Stjörnunnar á nýjan leik í vikunni eftir stutt stopp í Litáen. Tindastóll einnig áfram og tveir leikir á morgun Tindastóll tók á móti B-deildarliði Snæfells fyrr í dag þar sem liðið vann torsóttan sigur en fann þó farmiða í undanúrslit. Á morgun mætast KR og Breiðablik í Frostaskjóli og Valur tekur á móti Keflavík í Hlíðarenda. Leikur Vals og Keflavíkur hefst klukkan 19:30 verður sýndur á RÚV 2.