Sigríður Á. Andersen gagnrýnir utanríkisráðherra fyrir leyndarhyggju í umræðum um varnarmál

Sigríður Á. Andersen, þingflokksformaður Miðflokksins, segir Donald Trump Bandaríkjaforseta setja fram hótanir um að taka yfir Grænland til að stuða. Hún gagnrýnir leyndarhyggju utanríkisráðherra varðandi varnarmál. Að mati Sigríðar ber að taka hótunum Trumps alvarlega en ekki bókstaflega. Hún segir hótanirnar um að taka Grænland með valdi endurspegla taktík forsetans í samningaviðræðum. „Að henda inn svona sprengjum til þess að hræra upp í fólki og reyna síðan að loka einhverjum samningum,“ útskýrir hún. Sigríður gagnrýnir utanríkisráðherra fyrir að óska eftir trúnaði í umræðu um varnarmál í utanríkismálanefnd. „Það er auðvitað vandi við þessi mál fyrir okkur almenna þingmenn að hér virðast öll mál vera bundin einhverjum trúnaði við örfáa þingmenn. Og ég tel í rauninni ekki fara vel á því og held og myndi mælast til þess við utanríkisráðherra að hún myndi aðeins reyna að opna þessa umræðu aðeins betur þannig að menn átti sig á því um hvað ræðir hér,“ segir Sigríður. „Enda held ég að þessi mál séu í sjálfu sér að nokkru leyti bara rædd fyrir opnum tjöldum annars staðar og við þurfum að geta gert það líka,“ bætir Sigríður við. Barnaleg nálgun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir gagnrýni Sigríðar koma sér í opna skjöldu. „Þetta kemur mér mjög á óvart því ég hef verið í miklum samskiptum við utanríkismálanefnd og mér þætti líka betra að það fólk sem er að gagnrýna þessa fundi bara mæti einfaldlega á fundina,“ segir Þorgerður. „Við þurfum að geta átt í samskiptum og samtali við utanríkismálanefnd, Velta ýmsum möguleikum upp á grunni trúnaðar vegna þess að hér er undir varnar- og öryggismál og það er ekkert ríki í heiminum sem er með það alltaf úti þegar verið er að ræða viðkvæm málefni. Þannig að mér finnst þetta nú vera bara pínulítið barnalegt hvernig þeir nálgast þetta.“ Þorgerður segist ætla að halda áfram öflugum samskiptum við utanríkismálanefnd. „Ég mun leggja mig alla fram við það að allir flokkar komi að því að byggja upp enn öflugri varnir og öryggi fyrir okkur Íslendinga.“