Hundruð alríkisfulltrúa eru komnir eða væntanlegir til borgarinnar Minneapolis í Minnesota til viðbótar við þá sem fyrir eru. Heimavarnarráðherrann Kristi Noem segir það til að tryggja öryggi þeirra sem glími við ofbeldisfulla mótmælendur. Með því hefur Noem að engu kröfur borgarstjórans og ríkisstjórans um brotthvarf fulltrúanna. Það gerðu þeir eftir að starfsmaður innflytjendastofnunarinnar banaði Renee Nicole Good á miðvikudag. Noem hefur í fjölda viðtala varið athæfi fulltrúans sem hefur kveikt öldu mótmæla um nær gjörvöll Bandaríkin. Good hafi verið innanríkishryðjuverkamaður og fulltrúinn skotið hana í sjálfsvörn. Ríkisstjórinn Tim Walz og borgarstjórinn Jacob Frey segja það af og frá, myndskeið af atburðinum sanni annað. Þeir krefjast óvilhallrar rannsóknar og gagnrýna að alríkislögreglan annist hana ein. Noem segir þá kynda undir ofbeldi, að stjórnvöld hafi rétt fyrir sér, þótt rannsókn á atvikinu sé nýhafin. „Hvers vegna er rifist við forseta sem vill aðeins tryggja öryggi borgaranna?“ spurði hún í viðtali á CNN. Noem segir jafnframt að mótmælendur sem hindri aðgerðir alríkisfulltrúa verði sóttir til saka.