Trump segir samningafund í bígerð skömmu eftir að hann hótaði hernaði

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir ráðamenn í Íran hafa kallað eftir samningafundi skömmu eftir að hann boðaði að hernaðaraðgerðir væru í bígerð. Trump segir undirbúning fundar þegar hafinn. Þó gæti komið til hernaðaraðgerða áður en af honum verður. Skömmu áður sagðist hann aðspurður telja klerkastjórnina vera að fara yfir þau mörk sem hann setti um dráp á mótmælendum. „Það virðist stefna í það,“ sagði Trump við fréttafólk um borð í forsetaþotunni. Hann liti stöðu mála mjög alvarlegum augum. Trump sagði herinn þá jafnframt vera að skoða leiðir til að bregðast við af hörku. Ákvörðunar sé að vænta. Íranskir ráðamenn hafa hótað hefndaraðgerðum geri Bandaríkjaher árás á landið. Reza Pahlavi, sonur keisarans sem steypt var af stóli í byltingunni 1979, hvetur liðsmenn hers og öryggissveita og embættismenn til að standa með almenningi. Þeir eigi þá valkosti að verða samherjar fólksins eða meðsekir morðingjum þess. Þetta sagði Pahlavi skömmu eftir að mannréttindahópar sögðu yfirvöld stunda fjöldamorð til að kveða niður umfangsmikil mótmælin. Pahlavi var 19 ára þegar byltingin var gerð, er búsettur í Bandaríkjunum og mótmælendur hafa litið á hann sem einhvers konar andsvar við klerkastjórninni.