Ekki framin færri morð í Lundúnum síðan 2014

Á liðnu ári voru framin 97 morð eða manndráp í Lundúnum sem er það fæsta síðan 2014. Þetta kemur fram í samantekt Lundúnalögreglunnar sem birt var í morgun. Eins hafi ofbeldisglæpum fækkað um fimmtung á þessum tíu árum og þeim sem lögð hafa verið inn á sjúkrahús með stungusár fækkað um 30% á fimm árum. Það sýni tölur heilbrigðisþjónustunnar NHS. Ekki hafi heldur verið framin færri morð miðað við höfðatölu frá því skráningar hófust árið 1997. Borgarbúum hafi þó fjölgað talsvert síðan þá. Hlutfallið sé lægra en í New York, Berlín, París og Los Angeles. Enga tölfræði er að finna í skýrslunni um fjölda þjófnaða eða kynferðisbrota í Lundúnum á síðasta ári. Símaþjófnaðir halda áfram að tröllríða höfuðborginni. Lögreglan tók á móti rúmlega 117 þúsund slíkum tilkynningum í fyrra, samanborið við tæplega 91.500 árið 2019. Það er fjórðungs fjölgun. Borgarstjórinn Sadiq Khan segir í yfirlýsingu að langvinn og hörð barátta yfirvalda gegn glæpum og viðbrögð við orsökum þeirra hafi skilað sér. Margir dragi upp dökka mynd af Lundúnum en tölurnar tali sínu máli. Hið sama segir í fréttatilkynningu Lundúnalögreglunnar, borgin sé örugg sem heimili, vinnustaður og áfangastaður ferðamanna. Það megi þakka þrotlausu starfi löggæslumanna. Khan er fyrsti borgarstjóri Lundúna sem aðhyllist íslam og hann hefur iðulega hyllt fjölbreytileika borgarinnar. Hann hefur undanfarið orðið fyrir árásum á samfélagsmiðlum vegna trúarskoðana sinna. Mjög hægrisinnaðir og íhaldssamir stjórnmálamenn og álitsgjafar á borð við Elon Musk hafa kennt jákvæðu viðhorfi Khans til innflytjenda um að glæpum hafi fjölgað í stjórnartíð hans. Umbótaflokkurinn Reform UK sagði baráttu gegn glæpum í Lundúnum verða höfuðmál í sveitarstjórnarkosningum í vor og borgarstjórakosningum 2028. Borgarstjóraefnið Laila Cunningham sagði þá Lundúni ekki lengur örugga og allra síst fyrir konur.