Þúsundir urðu strandaglópar í gær eftir að fimbulkuldi leiddi til þess að öllum flugferðum var frestað frá Kittila-flugvelli í Lappahéraði Finnlands. Mjög erfitt getur orðið að beita afísingarvökva vegna kuldans auk þess sem áfyllingarbúnaður og önnur tæki geta brugðist. Loft er einnig mjög rakt þannig að mikil hálka hefur myndast á flugbrautum og vegum. Frostið fór yfir 35 gráður í gær og í dag spáir Veðurstofa Finnlands allt að 39 stiga frosti. Fyrstu flugferðum frá Kittila hefur þegar verið frestað samkvæmt fréttum BBC. Nokkrum flugferðum frá Kittila var frestað á föstudag og laugardag. Flugvöllurinn í Kittila þjónar aðallega þeim sem sækja skíðasvæði eða vilja sjá Norðurljósin. Ferðamenn sem vilja vitja opinberra heimkynna jólasveinsins fara gegnum Rovaniemi, nokkru sunnar. Einni flugferð þaðan var frestað í gær. Frost og raki valda einnig erfiðum akstursskilyrðum á vegum. Rúta með úkraínska ferðamenn lenti utan vegar í gærmorgun án þess að nokkur slasaðist alvarlega. Lappland nær yfir norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Meðalhitastig að vetrarlagi er fjórtán gráður undir frostmarki og fer af og til niður undir þrjátíu gráður, samkvæmt upplýsingum Ferðamálaráðs Finnlands.