Taldi sig vera á leið í Þór en endaði í Víkingi

Árið 1988 var aðeins einn erlendur fótboltamaður sem spilaði í efstu deild karla á Íslandi en hann kom frá Bretlandi. Ári síðar spiluðu hins vegar þrír erlendir leikmenn í deildinni og þeir komu allir frá Júgóslavíu. Einn þeirra var Goran Micic. Hann er einn viðmælenda í þáttaröðinni Balkanbræður sem hóf göngu sína á Rás 1 á laugardag. „Ég kom til Íslands á afmælisdaginn minn, 7. mars árið 1989. Þannig ég gleymi þeim degi aldrei,“ segir Goran Kristófer Micic um það þegar hann flutti til Íslands frá gömlu Júgóslavíu til að spila fótbolta. Knattspyrnumaðurinn Goran Kristófer Micic er einn af fyrstu erlendu mönnunum til að spila á Íslandsmótinu í fótbolta. Hann kom til Íslands árið 1989 og samdi þá við Víking í Reykjavík. Hann taldi sig þó vera á leið til Þórs á Akureyri. „Á þessum tíma höfðu hlutirnir í félaginu mínu í Júgóslavíu breyst. Það var kominn nýr þjálfari og þessar breytingar komu ekki vel út fyrir mig. En ég var með atvinnusamning við félagið sem var til fjögurra ára. Nýi þjálfarinn spilaði kerfi sem ég passaði ekki inn í og notaði mig því ekki. En samningurinn minn var við það að renna út og ég ákvað að ég vildi breyta til og prófa eitthvað nýtt í öðru landi. Ég var 26 ára á þessum tíma og með mína reynslu úr júgóslavnesku atvinnumannadeildinni vildi ég reyna mig annars staðar,“ segir Goran Kristófer í fyrsta þætti Balkanbræðra, þáttaraðar í sex hlutum sem frumfluttur var á Rás 1 í laugardag og má finna í Spilara RÚV og á helstu hlaðvarpsveitum. Ætlaði til Sviss en fór til Íslands „Ég var kominn í samband við svissneska liðið Servette og búinn að vera á reynslu þar og allt leit út fyrir að ég fengi samning þar. En þá hófst pappírsvinnan við að klára félagaskiptin. Á þessum tíma tóku slíkir hlutir oft mjög langan tíma og það gat jafnvel farið svo að ég þyrfti að bíða í sex mánuði eftir að félagaskiptin gengu í gegn og gæti þá ekki spilað neitt á meðan,“ segir Goran og heldur áfram. „En á þessum sama tíma var Milan Duricic samlandi minn nýtekinn við liði Þórs á Akureyri. Hann hafði einnig verið að vinna fyrir júgóslavenska landsliðið. Duricic hafði samband við mig og var að leita að framherja til að taka með sér til Íslands. Þar sem ég var sóknarmaðurinn spjölluðum við saman en ég var hreinskilinn og sagðist vera í viðræðum við Servette en væri að bíða eftir pappírunum. En hann sagði að það gæti orðið löng bið og spurði hvort ég gæti lofað honum því að koma frekar til Íslands ef hann kláraði allt fyrir mig hratt og örugglega og ég sagði já,“ segir Goran. Misskilningur hjá umboðsmanninum á Íslandi Duricic bjó svo þannig um hnútana að Goran flaug til Íslands hratt og örugglega og lenti svo í Keflavík 7. mars 1989. „Ég var sem sagt að fara að spila með Þór á Akureyri. En þá hafði orðið einhver misskilningur hjá júgóslavenska umboðsmanninum á Íslandi,“ segir Goran. Á þessum tíma máttu félög aðeins vera með tvo erlenda leikmenn á sínum snærum og Þór hafði þegar samið við Luka Kostic og Bojan Tanevski um að leika fyrir Akureyrarliðið um sumarið. Það var því komið babb í bátinn rétt eftir að Goran Micic lenti á Íslandi. Knattspyrnumaðurinn Goran Kristófer Micic er einn af fyrstu erlendu mönnunum til að spila á Íslandsmótinu í fótbolta. Hann kom til Íslands árið 1989 og samdi þá við Víking í Reykjavík. Hann taldi sig þó vera á leið til Þórs á Akureyri. „Þannig ég lenti bara í Víkingi í Reykjavík,“ segir Goran sem spilaði svo með Víkingi við góðan orðstír árið 1989 og skoraði sex mörk í 17 deildarleikjum. Hann var svo áfram með Víkingi árið á eftir en átti svo eftir að spila með Þrótti í Reykjavík, vera spilandi þjálfari Þróttar í Neskaupstað áður en hann svo gekk í raðir Stjörnunnar þar sem Goran spilaði lengi. Þáttaröðin Balkanbræður er á dagskrá Rásar 1 á laugardögum klukkan 10:15 frá 10. janúar til 14. febrúar. Þættina má nálgast í Spilara RÚV og á hlaðvarpsveitum . Knattspyrnumaðurinn Goran Kristófer Micic er einn af fyrstu erlendu mönnunum til að spila á Íslandsmótinu í fótbolta. Hann kom til Íslands árið 1989 og samdi þá við Víking í Reykjavík. Hann taldi sig þó vera á leið til Þórs á Akureyri.