Erlendir ferðamenn skoðuðu hellinn, fossinn og fjallið Gjaldskyldu

Gjaldskylda var valið orð ársins 2025 í kosningu hlustenda Ríkisútvarpsins og lesenda RÚV.is. Ár hvert berast hundruð tillagna, úr þeim eru valin orð á lista og almenningur greiðir sínu orði atkvæði. Það er óhætt að segja að orðin endurspegli tíðarandann hvert ár, jafnt heimafyrir sem úti í hinum stóra heimi. Fyrsta orð ársins var fössari Það var nokkuð friðsamlegt í heiminum þegar leitin að orði ársins hófst árið 2015, þá í samstarfi við Mími og Árnastofnun. Ferðamönnum fór sífellt fjölgandi og orðið lundabúð var á listanum. Við hugsuðum um umhverfið, náungann og okkur sjálf og settum deilihagkerfi , hópfjármögnun og matarsóun á listann milli þess sem við iðkuðum núvitund . Og fyrsta orð ársins var með léttu yfirbragði: fössari , sem var skýrt sem slangurorð yfir föstudag. Fössari felur í sér gleði og spennu yfir því að vinnuvikunni sé að ljúka og nú megi slaka á. Kulnun og klausturfokk Árið 2018 voru settir upp tveir orðalistar, annar þeirra eingöngu með nýyrðum. Orð ársins var kulnun , og greinilegt að núvitundin frá 2015 dugði skammt. Nýyrðið var klausturfokk , sem er myndað með hljóðlíkingu við enska orðið clusterfuck sem má einna helst skýra sem: meiriháttar klúður. Orðið klausturfokk var búið til í tengslum við hljóðupptökur sem rötuðu í fjölmiðla, af samtali nokkurra alþingismanna sem sátu að sumbli á bar í miðborginni. Órói og ákefð Svo kom heimsfaraldur kórónuveiru og miklar jarðhræringar hófust á Reykjanesskaga. Árið 2021 voru á listanum fjölmörg orð sem tengdust faraldrinum svo sem bólusetningaröfund , hraðpróf , úrvinnslusóttkví og örvunarskammtur . Og líka orð sem tengdust jarðhræringum og öfgum í veðurfari eins og óróapúls og sviðsmynd , hitamet og úrkomuákefð . Orð ársins hjá RÚV það árið var óróapúls en Árnastofnun valdi orðið bólusetning . Gervigreind lagði heiminn svo undir sig árið 2023 og var orð ársins, ekki bara hér á landi. Gjaldskylda við fossa, fjöll og gil Orðið gjaldskylda varð hlutskarpast í kosningu á RÚV.is um orð árins 2025. Gjaldskylda er aldeilis ekki nýtt orð og sennilega hefur engum Íslendingi fundist neitt athugavert við orðið sjálft þegar það tók að skjóta upp kollinum á flestum ferðamannastöðum. Orðið merkir einfaldlega að það er skylt að greiða fast gjald fyrir tiltekna þjónustu, til dæmis afnot af bílastæði í eigu sveitarfélags. Það var sem sagt ekki orðið gjaldskylda sem gerði landsmönnum gramt í geði þegar þeir sáu það á ferðamannastöðum um allt land og víðar, jafnvel við bensínstöð í miðborginni, heldur kannski frekar að nú þyrftu þeir að greiða fyrir að leggja bílnum sínum í smástund til að skoða foss eða fjall eða gil sem þeir hafa hingað til getað skoðað án þess að borga krónu fyrir. Auk þess þykir gjaldið hátt. Gjaldskylduskiltin meira áberandi en nöfn staðanna Orðið gjaldskylda komst þó fyrir alvöru í fréttir þegar Íslendingar komust að því að ferðamenn hér á landi voru farnir að birta myndir af sér við gjaldskyldu-skilti um allt land, á samfélagsmiðlum, og sögðust hafa verið að skoða þennan fræga og fallega stað sem héti Gjaldskylda. Það er erfitt að segja hvort þetta var grín eða alvara og hvort túristarnir héldu í raun og veru að þeir væru að skoða hellinn, fossinn eða fjallið Gjaldskyldu. Íslendingar hlógu að heimsku ferðamannanna en ferðamennirnir hafa vísast fremur verið að hæðast að þessum skiltum sem eru yfirleitt meira áberandi en nafn staðarins sem þeir komu til að skoða. Langflest orðin tengjast innlendum atburðum Orðin á listanum benda til þess að landsmenn hafi litið sér nær að þessu sinni. Þau tengjast langflest innlendum atburðum, eða gjörningum á alþjóðavettvangi sem snerta Ísland beint. Það á eiginlega við um öll orðin nema eitt, það síðasta á listanum. Bikblæðing Ítrekað var varað við bikblæðingum á vegum úti í vor og sumar. Bikblæðing stafar af því að yfirborð vegarklæðningar hitnar mikið og steinarnir á yfirborðinu sökkva ofan í bikið. Gjaldskylda Athygli vakti að erlendir ferðamenn tóku að merkja myndir teknar á þekktum ferðamannastöðum með staðsetningunni Gjaldskylda og má draga þá ályktun að þeir telji að staðurinn heiti það. Græna gímaldið Stórt grænt vöruhús sem stendur mjög nálægt fjölbýlishúsi í Breiðholti í Reykjavík vakti deilur sem fengu mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Brátt var farið að kalla vöruhúsið græna gímaldið . Málþóf Málþóf var áberandi á Alþingi á árinu, einkum í umræðum um veiðigjald. Málþóf felur í sér að hópur þingmanna setur á langar ræður og notfærir sér þingsköp til hins ýtrasta til að kom í veg fyrir eða tefja framgang þingmála. Símabann Mennta- og barnamálaráðherra vill banna snjallsímanotkun barna í grunnskólum og hefur lagt fram frumvarp um það á Alþingi. Í mörgum skólum hafa þegar verið settar reglur sem takmarka símanotkun og símabannið þykir reynast vel. Tollastríð Forseti Bandaríkjanna tilkynnti að tollar yrðu lagðir á allar vörur sem fluttar eru inn til Bandaríkjanna. Önnur ríki svöruðu með því að leggja tolla á vörur  frá Bandaríkjunum og þá hófst tollastríð . Valkyrjustjórnin „Valkyrjurnar eru komnar til að sjá og sigra,“ sagði Inga Sæland við upphaf stjórnarmyndunarviðræðna Flokks fólksins, Samfylkingarinnar og Viðreisnar. Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur verið kölluð valkyrjustjórnin . Veiðigjald Veiðigjald er lagt á eigendur fiskiskipa til að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar. Breytingar á lögum um veiðigjald tóku gildi eftir lengstu umræður á Alþingi frá upphafi. Viðlagakassi Viðlagakassinn er hugsaður fyrir helstu nauðsynjar sem þarf til að komast af í að minnsta kosti þrjá daga. Þjóðernishreinsanir Þjóðernishreinsun kallast það að hrekja ákveðna hópa burt af svæðum eða drepa þá vegna kynþáttar eða trúarskoðana. Antonio Guterrez, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði við þjóðernishreinsunum á Gaza. Anna Sigríður Þráinsdóttir og Guðrún Línberg Guðjónsdóttir fjölluðu um orð ársins 2025 í Orði af orði á Rás 1.