Vörslureikningur sem lögmaður Vélfags ætlaði að nota til að greiða vangoldin laun starfsmanna fyrirtækisins var frystur í ársbyrjun. Þessu greinir Sigurður G. Guðjónsson lögmaður frá í aðsendri grein á Vísi í dag. Sigurður hefur gætt hagsmuna Vélfags í deilu fyrirtækisins við stjórnvöld, Arion banka og Landsbanka eftir að gripið var til refsiaðgerða gegn fyrirtækinu þar sem það er enn talið tengjast rússnesku fyrirtæki sem er hluti af skuggaflota Rússa. Eignir Vélfags voru frystar í sumar. Fyrirtækið fékk undanþágur til rekstrar fram í nóvember. Það hefur síðan sagt upp öllum starfsmönnum og hefur leitað leiða til að standa við skuldbindingar síðan. Sigurður segir í grein sinni á Vísi að fyrirtækið hafi selt lausafé milli jóla og nýárs til að greiða starfsfólki laun. Áður hafi fyrirtækið fengið svar frá utanríkisráðherra um að ekki væri þörf á undanþágu fyrir slíku nema ef féð væri lagt inn á frysta reikninga. Úr varð að greiðslan var lögð inn á vörslureikning Sigurðar 30. nóvember sem greiddi samdægurs út laun vegna nóvember. Þegar hann ætlaði að greiða út laun vegna desember hafi komið babb í bátinn. Sigurður segir að ráðuneytið hafi í einu bréfi til Vélfags sagt að greiða yrði launin út af frystum bankareikningi hjá Vélfagi. Hann hafi því ætlað að millifæra féð af vörslureikningi sínum á reikning fyrirtækisins. Þá hafi Landsbankinn sagt að þetta mætti ekki og fryst vörslureikninginn. Sigurður segir að sér hafi verið tilkynnt að ekki mætti millifæra fé af reikningum án leyfis utanríkisráðuneytisins. Þetta segir hann að sé „óháð því hvort einhver annar skjólstæðingur hans hefði einnig átt fé á hinum frysta vörslureikningi; vörslureikningi sem í fjölda ára hefur verið notaður til að varðveita fé, sem ráðstafa á fyrir viðskiptavini innan skamms tíma frá móttöku þess“. Sigurður segir í niðurlagi greinar sinnar að úr því sem komið er takist ekki að koma í veg fyrir eyðileggingu Vélfags en að enn megi koma því til leiðar að veðhafar, launþegar og birgjar fái borgað ef frystingu á vörslureikningi hans sé aflétt og ekki komið í veg fyrir eignasölu.