„Íran leitast ekki eftir stríði en er reiðubúið til þess“

Utanríkisráðherra Íran segir ríkið vera reiðubúið til samningaviðræðna eða stríðs. Hann ávarpaði erlenda sendiherra í höfuðborginni Teheran. Fjöldi mótmælenda hefur látið lífið í mótmælabylgju í Íran síðan í desember. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í síðustu viku að Bandaríkin myndu bregðast við ef mótmælendur yrðu drepnir. Stjórnvöld í Íran hafa tekið harkalega á mótmælunum og þúsundir hafa verið handteknar. Ekki er ljóst hve margir liggja í valnum. Breska ríkisútvarpið segist hafa talið 180 en mannréttindasamtök segjast hafa staðfest tæplega 500 dauðsföll. Trump útilokaði ekki hernaðaríhlutun en sagði í gær að Íranar væru reiðubúnir til viðræðna við Bandaríkjamenn. „Íran sækist ekki eftir stríði en er fullkomlega reiðubúið fyrir stríð,“ sagði Abbas Araghchi utanríkisráðherra Írans. „Við erum líka reiðubúin til samningaviðræðna en þær ættu að vera réttlátar og byggðar á gagnkvæmri virðingu,“ sagði Araghchi í dag. Ráðuneytið sagðist vera í samskiptum við sendifulltrúa Bandaríkjanna. Araghchi sagði Íran vera betur undirbúið fyrir stríðsátök en í aðdraganda tólf daga átaka við Ísrael síðasta sumar. Þá létust rúmlega þúsund manns í sprengjuárásum Ísraela á Íran. Hann sagði að nettengingu yrði fljótlega komið aftur á í Íran en greindi ekki frá nákvæmri tímasetningu. Íranar hafa verið án nettengingar í rúmlega þrjá sólarhringa.