Tónlistarmiðstöð hélt móttöku fyrir styrkhafa í fyrri úthlutun ársins úr Tónlistarsjóði fimmtudaginn 8. janúar. Tónlistarfólk, fagaðilar, fulltrúar sjóðsins og aðrir gestir komu þar saman til að fagna úthlutuninni, þeirri fjórðu frá stofnun sjóðsins árið 2024. Emilíana Torrini og Lovísa Elísabet Sigurðardóttir, eða Lay Low, hljóta hæstu styrki ársins úr deild frumsköpunar og útgáfu, tvær milljónir króna hvor. Ásgeir Trausti Einarsson, Elín Sif Halldórsdóttir og Daði Freyr Pétursson fá hæstu markaðsstyrkina úr útflutningssjóði, 1,7 milljónir hvert. Hæstu viðskiptastyrki úr deild þróunar og innviða fá Austurbæjarbíó og Sumartónleikar í Skálholtskirkju, þrjár milljónir hvor. Alls bárust sjóðnum 342 umsóknir. Til úthlutunar voru rétt tæpar 92 milljónir sem fara í 80 verkefni. Úthlutunin efldist til muna með 11 milljóna króna framlagi frá Reykjavíkurborg úr Músíksjóði Guðjóns Sigurðssonar, sem stofnaður var 1908 en hefur nú verið slitið. Flestar umsóknir bárust fyrir verkefni þar sem forsvarsmaður er karl, eða 56% umsókna á móti 40% frá konum. Árangurshlutfall umsókna var 21% hjá körlum og 26% hjá konum. Flestir styrkir voru veittir einstaklingum, 51% en 18% fara til fyrirtækja og aðrir styrkir til félagasamtaka, stofnana og annarra umsækjenda. Af heildarupphæðinni renna 66% til verkefna á höfuðborgarsvæðinu, 26% til verkefna annars staðar á landinu og 8% til verkefna erlendis. Sjóðnum er skipt í fjórar deildir og skiptast styrkirnir á milli þeirra. Í deild frumsköpunar og útgáfu fá tónlistarkonurnar Emilíana Torrini og Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, Lay Low, hæsta styrki, tværi milljónir króna hvor. Árni Vilhjálmsson og Dagur Kristinn Sigurðsson Björnsson hljóta 1,7 milljónir hvor. Styrkumsóknir voru 184 og af þeim fá 36 verkefni styrk. Flest verkefni í þessari deild tilheyra poppi, rokki og indí. Einnig er úthlutað til sígildrar og samtímatónlistar og raftónlistar auk annarra tónlistarstefna. Í flokki lifandi flutnings voru 78 umsóknir um og úthlutað til 22 verkefna. Marvaða fær hæsta verkefnastyrkinn, 1,5 milljónir króna, fyrir tilraunaóperuna LOVE. Sambandið óperukompaní, Sinfóníuhljósmveit Austurlands og Þórunn Guðmundsdóttir fá öll eina milljón króna í verkefnastyrk. Gerðir hafa verið tveir samningar til tveggja ára, við kammersveitina Elju og barrokbandið Brák. Tales from Iceland fær hæsta verkefnastyrk úr deild þróunar og innviða, þrjár milljónir, fyrir verkefnið Endurreisn Austurbæjarbíós og Sumartónleika Skálholtskirkju. Þá fá Hannesarholt og Reykjavík Early Music Festival tvær milljónir króna hvort. Gerðir hafa verið þrír langtímasamningar, við Aldrei fór ég suður, Jazzhátíð Reykjavíkur og tónlistarhátíðina Seiglu. Viðbótarframlagi frá Reykjavíkurborg er ráðstafað til deildar þróunar og innviða úr Músíksjóði Guðjóns Sigurðarsonar. Verkefni og samningar sem fá viðbótarframlag eru Jazzhátíð Reykjavíkur og Seigla. Sjóðurinn fjármagnar fyrsta samningsárið að fullu auk barnadagskrár á öðru og þriðja ári. Hannesarholt fær tvær milljónir króna í verkefnastyrk, þar af eru 500.000 krónur eyrnamerktar barnadagskrá. Endurreisn Austurbæjarbíós fær þrjár milljónir króna í verkefnastyrk. Útflutningsdeild úthlutar 6.450.000 krónum til fimm verkefna. Hæsta styrki hljóta Ásgeir, Daði Freyr og Elín Hall, 1,7 milljónir króna hvert. 60% úthlutaðrar upphæðar renna til verkefna í poppi, rokki og indí. Einnig var úthlutað til sígildrar og samtímatónlistar, heims- og þjóðlagatónlistar.