Dagur Sigurðsson féll á lyfjaprófi í aðdraganda Ólympíuleikanna í handbolta árið 2004. Dagur hefur aldrei rætt um málið áður en opnaði sig um erfiða mánuði við Gunnlaug Jónsson. Lyfjapróf sem tekið var í Breiðholti dró dilk á eftir sér sem tók marga mánuði að leysa. Viðtal Gunnlaugs Jónssonar við Dag birtist í þremur þáttum á Sportrásinni á Rás 2. Þórður Helgi Þórðarson stýrir Sportrásinni sem hefur snúið aftur og er alla sunnudaga frá 12:40. Viðtalsröð Gunnlaugs ber nafnið Góð íþrótt, Gulli betri og birtist áfram næstu sunnudaga þar sem hann fer yfir fleiri íþróttasögur. Ekki tók hann parkódin forte? Dagur var verkjaður í aðdraganda Ólympíuleikanna í Grikklandi og fékk töflu frá sjúkraþjálfara liðsins. Í ljós kom að hún er á bannlista. „Við erum að æfa uppi í Breiðholti fyrir Ólympíuleikana. Það er alveg rosalegt æfingaprógramm og maður passar sig að vera með allt á hreinu, borða vel og allt þetta. Þá kemur lyfjaeftirlitið og tekur okkur alla í próf. Svo bara nokkrum dögum seinna þá fljúgum við til Aþenu. Við lentum þar í hita og ég er með dúndrandi hausverk.“ „Ég fer til sjúkraþjálfarans og spyr hvort hann eigi ekki eitthvað fyrir mig fyrir svefninn. Hann segir farðu bara í tösku. Ég fer í sjúkratöskuna og þrýsti í mig einni parkódín forte. Svo morguninn eftir þá spyr sjúkraþjálfarinn hvort ég sé ekki í standi og hvort það sé ekki í lagi með mig. Þá spyr læknirinn: „Hvað er eitthvað að Degi? Hann var bara með hausverk í gærkvöldi,“ segir Dagur. „Hvað gafstu honum? Hann tók bara eina úr töskunni. Ekki tók hann parkódin forte? Hann má það. Það er á bannlistanum. Af hverju ertu með það í töskunni? Þetta er náttúrulega fyrir okkur starfsfólkið, segir hann. Ég fæ náttúrulega alveg svakalega í magann.“ Viðtalið við Dag má hlusta á hér að neðan. Dagur Sigurðsson féll á lyfjaprófi í aðdraganda Ólympíuleikanna 2004. Hann ræddi málið í fyrsta sinn í viðtali við Gunnlaug Jónsson á Sportrásinni á Rás 2. Málið lá yfir honum í marga mánuði en í ljós kom að Dagur er í afar fámennum hópi. Sá fyrir sér blaðaviðtal hjá Gísla Marteini Þegar á mótið er komið fer það svo að Dagur er settur í lyfjapróf. Niðurstaðan barst ekki strax og næstu dagar urðu afar óþægilegir. „Svo spilum við fyrsta leikinn. Svo er dregið upp úr hattinum hver á að fara í lyfjaprófið. Þá kemur upp úr hattinum númer sex, Dagur Sigurðsson. Og ég bara guð minn góður strákar, hvað er að gerast. Ég sá fyrir mér bara blaðaviðtalið hjá Gísla Marteini, eitthvað að reyna að útskýra þetta.“ Við tók taugatrekkjandi bið á mótinu sjálfu. „Nema hvað við förum inn í lyfjaprófið og læknirinn með mér. Svo er það búið og ég spyr hvort eitthvað hafi komið út úr þessu. Það er leikur eftir einn dag. Það var ekkert komið út úr þessu og svo spilaði ég leik númer tvö. Það var ekkert komið út úr þessu prófi. Svo kemur læknirinn til mín og segir að það hafi ekkert komið út úr þessu. Þá þýðir það að ekkert hefur gerst. Mér var mjög létt og var búinn að vera með magasár þarna fyrstu tvo leikina.“ Hér má sjá allt það helsta frá átökum landsliðsins á Ólympíuleikunum 2004. Syrpa er úr samantektarþáttunum Ólympíukvöldi. Dagur Sigurðsson féll á lyfjaprófi í aðdraganda Ólympíuleikanna 2004. Hann ræddi málið í fyrsta sinn í viðtali við Gunnlaug Jónsson á Sportrásinni á Rás 2. Málið lá yfir honum í marga mánuði en í ljós kom að Dagur er í afar fámennum hópi. Féll á lyfjaprófi í Breiðholti fyrir mót Dagur hélt þá að sagan með ólöglega lyfjanotkun væri búin, en þá kom í ljós að hann hafði fallið á lyfjaprófi þegar landsliðið var prófað fyrir Ólympíuleikana. Hann þurfti því að vera undir sérstöku eftirliti næstu mánuði. „Svo kem ég til Bregenz, þar sem ég var komin þangað að spila í Austurríki. Þá fæ ég símtal eftir Ólympíuleikana í votta viðurvist allrar lyfjanefndar Íslands. Það er verið að tilkynna með það að ég hafi fallið á lyfjaprófinu í Breiðholtinu.“ „Það er nú skrýtið, segi ég. Ég fór í lyfjapróf líka úti í Aþenu. Það var ekkert þar og ég hef ekki tekið neitt og passað mig mjög vel. Þetta getur ekki verið. Það er nú samt þannig. Nú þurfum við að fá B-sýni og það verður fylgst með þér í hálft ár, sem er oft gert.“ Hvernig tók liðið í þetta? Á meðan á þessu öllu stóð keppti Dagur áfram fyrir Bregenz. Forseti liðsins tók orðum Dags trúanlega. „Þannig að ég, sem ég svo sem vissi, en það var samt óþægilegt að hafa þetta hangandi yfir sér í hálft ár. Ég þurfti að fara og tilkynna liðinu sem ég var að spila fyrir í Austurríki. Ég þurfti að fara inn til formannsins og segja „heyrðu, ég féll á lyfjaprófi en það er verið að taka B-sýni eða hvað þetta heitir“. Hann var helvíti flottur sá karl, Roland Frühstück heitir hann.“ „Hann sagði: „Dagur: Tókstu eitthvað? Viltu segja mér það núna? Ég ætla að spyrja þig einu sinni?“ Ég sagði „nei. Ég tók ekki neitt. Ég sver það á börnin mín hafa.“ Þá var það afgreitt og ég spilaði eins og ekkert hefði í skorist. Þetta var svona hálft ár sem maður var með smá magasár.“ Einmitt þetta eina prósent Næstu mánuði kemur fólk frá alþjóðlega lyfjaeftirlitinu til að fylgjast með hverju skrefi Dags. Dagur fór í próf eftir próf og að lokum kom í ljós að hann er í afar fámennum hópi karlmanna. „Það kemur eitthvað lyfjaeftirlitsfólk þarna frá Sviss alltaf til mín í Austurríki. Þau koma stundum heim og stundum á æfingar. Alltaf að óvörum einhvern veginn. Ég er að pissa þarna í hálft ár fyrir þau. Ég man enn þá hvar ég var, sko. Ég var á leiðinni á jólaskemmtun. Þetta gerðist í ágúst á Ólympíuleikunum. Þá kemur símtal frá lyfjaeftirlitinu um að það sé komið úr öllum prófunum. Niðurstöðurnar frá Svíþjóð séu þær að ég sé einmitt þetta eina prósent af karlmönnum með flöktandi testósterón eða eitthvað. Þetta útskýrir kannski ýmislegt. Ætli þetta útskýri svona skapsveiflur? Stuttan þráð?“ Næsta þátt um Dag má heyra á Sportrásinni á RÚV2 á sunnudaginn.