Kona sem skaut íslenskan fjárhund með haglabyssu var sýknuð af ákæru um vopnalagabrot. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands vestra í síðustu viku. Konan stóð vörð um æðarvarp á ótilgreindum stað á Norðurlandi vestra. Hún sagði að það hefði tekið eigendur tíu ár að tvöfalda æðarvarpið með því að standa vörð um það í átta vikur á hverju sumri. Þannig hafi átt að tryggja kollunum algjöran frið fyrir mönnum og dýrum. Konan sagðist hafa orðið vör við tvo hunda sem stefndu í átt að æðarvarpinu í júní 2024. Hún reyndi að stugga þeim burt og dugði það til að annar þeirra sneri við. Hinn hundurinn hefði haldið áfram og sagðist konan ekki hafa séð sér annað fært en að skjóta hundinn. Þegar þetta gerðist voru fimm mánuðir liðnir frá því skotvopnaleyfi konunnar rann út. Konan afhenti eigendum hundsins hræið í svörtum plastpoka. Eigendurnir voru ekki sáttir og tilkynntu drápið til lögreglu. Þau eru ábúendur á bæ nærri æðarvarpinu og var hundurinn heimilishundur þeirra. Konan sem var ákærð fyrir að drepa hundinn sagðist hafa beitt neyðarrétti til að verja æðarvarpið, svo sem lög leyfðu. Hún hefði reynt að stöðva hundinn með öðrum hætti en það ekki dugað til. Konan sagði að árinu áður hefðu hundarnir hlaupið niður æðarvarpsgirðinguna og hreinsað út allt varpið. Þeir hefðu líka valdið miklu tjóni hjá nágranna þeirra. Hún sagðist jafnframt hafa talað við eigendur hundsins áður en æðarvarpið hófst til að leggja áherslu á að þeir kæmust ekki að varpinu. Dómari kvað upp þann dóm að konunni hefði verið heimilt að beita neyðarrétti með því að drepa hundinn til að verja búið. Hann vísaði meðal annars til þess að tekjur af æðarvarpinu þetta sumar hefðu numið 81.500 evrum, andvirði tólf milljóna króna. Til samanburðar kosti hvolpur íslensks fjárhunds 350 þúsund krónur. Dómari taldi sýnt fram á að aðrar vægari aðferðir hefðu ekki dugað til að verja varpið að þessu sinni.