NATO leitar leiða til að tryggja öryggi á norðurslóðum – Rutte forðast að gagnrýna Trump

Atlantshafsbandalagið (NATO) leitar nú leiða til að tryggja öryggi á norðurslóðum. Þetta segir Mark Rutte, framkvæmdastjóri bandalagsins. „Við vinnum nú að næstu skrefum til að tryggja að við vinnum sannarlega saman að því að verja það sem er í húfi,“ segir Rutte. Hann er nú í Zagreb, höfuðborg Króatíu, í vinnuheimsókn. Hefur einungis áhyggjur af Rússum og öðrum andstæðingum Á sameiginlegum blaðamannfundi Rutte með Andrej Plenković, forsætisráðherra Króatíu, svaraði Rutte ekki spurningum blaðamanna um ummæli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um Grænland með beinum hætti. Hann sagðist aftur á móti fagna öllum umræðum um samstarf og samvinnu bandalagsþjóða á norðurslóðum. Rutte sagði að einu áhyggjurnar sem hann hefði sneru að því hvernig NATO-ríkin gætu tryggt öryggi sitt gagnvart Rússum og öðrum andstæðingum bandalagsins. Í frétt Guardian segir að Rutte hafi forðast það að gagnrýna Trump. Hann sagði forsetann aftur á móti hafa gert vel með því að hvetja bandalagsríkin til að verja meira fé í varnarmál. Hann væri „algjörlega sannfærður“ um að niðurstaðan um 5% framlag til varnarmála hefði ekki náðst nema fyrir tilstuðlan Trumps. Fyrir það eigi Bandaríkjaforseti hrós skilið. Varnarmálastjóri ESB: Yfirtaka Bandaríkjanna myndi þýða endalok NATO Ummæli Trumps um Grænland hafa skekið bandalagið á síðustu dögum. Hann sagði í samtali við New York Times að hann vildi leysa deilu Bandaríkjanna og Danmerkur um Grænland „almennilega“ með því að ná yfirráðum yfir Grænlandi. Það væri „sálfræðilega mikilvægt fyrir árangur“. Það væri ekki það sama að eiga landið og að skrifa undir samninga á pappír um fjölgun herstöðva. Spurður að því hvort hann myndi senda fleiri bandaríska hermenn til Grænlands sagðist Trump ekki halda að það yrði nauðsynlegt. Fyrr í viðtalinu sagðist hann ekki mótfallinn því að senda fleiri hermenn til landsins. Andrius Kubilius, varnarmálastjóri Evrópusambandsins, segir hernaðarlega yfirtöku Bandaríkjanna hafa í för með sér endalok Atlantshafsbandalagsins. Í samtali við Reuters segir Kubilius að ríki Evrópusambandsins yrðu líka skuldbundin til að koma Danmörku til aðstoðar ef til yfirtöku Bandaríkjanna kæmi.