Tónlistarkonan Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir og djassgeggjarinn Tómas R. Einarsson tóku höndum saman og sendu frá sér breiðskífuna GDRN & Tómas R þann 9. janúar. Þau hafa lengi haft hug á að vinna eitthvað saman og eftir að hafa spilað saman á djasshátíð fyrir tveimur árum ákváðu þau að slá til. Platan inniheldur 10 lög sem þau sömdu saman en Guðrún Ýr syngur og spilar á fiðlu og Tómas R. á bassann. Þeim til aðstoðar eru Ómar Guðjónsson sem spilar á gítar, Magnús Jóhann á píanó og Magnús Trygvason Eliassen á trommur. Kúbanski tresgítarleikarinn César Hechavarría kemur við í einu lagi. Bergur Þórisson sá um sándið, Baldur Kristjáns myndaði og Þormar Melsted hannaði. Guðrún Ýr og Tómas R mættu í hljóðstofu til Margrétar Erlu Maack og ræddu nýju plötuna og samstarfið.