Aron Pálmarsson, fyrrum landsliðsfyrirliði í handbolta, verður hluti af umfjöllun Stofunnar í kringum EM í handbolta sem hefst á föstudag. Aron var leynigestur í þriðja og síðasta þætti Biðstofunnar þar sem hann ræddi meðal annars hvað hann vill sjá frá íslenska liðinu á mótinu sem er fram undan. „Ég þreytist ekki á að tala um hvað mér finnst Haukur góður handboltamaður. Ég væri bara til í að sjá hann vera besta leikmann liðsins á þessu móti,“ segir Aron aðspurður hvort Ísland eigi eitthvað inni fyrir mótið. Aron Pálmarsson vonast eftir því að Haukur Þrastarson láti ljós sitt skína á EM í handbolta sem hefst á föstudag. Aron var gestur Biðstofunnar í dag og segist vonast eftir því að Haukur verði besti leikmaður liðsins á mótinu. Hann vísar þar í Hauk Þrastarson, leikmann Rhein Neckar Löwen í Þýskalandi, sem hefur átt prýðisgott tímabil í þýsku úrvalsdeildinni hingað til og er með yfir 100 stoðsendingar og mörk. Kári Kristján Kristjánsson, einn sérfræðingur Stofunnar, spurði Aron hvað það væri sem hann sæi svona mikið í Hauki, sem hann hefði kannski ekki alveg náð að sýna með landsliðinu hingað til. „Hann er núna á frábærum stað með augljóslega þjálfara sem hefur trú á honum þarna í Þýskalandi. Það er sjálfstraust í honum. Núna finnst mér tíminn, það sem mér finnst hann geta er nánast allt. Hann er með góða yfirsýn, hann er með gott skot, hann getur spilað með línu, hann á að vera fínn fintari. Hann á alltaf að geta komið sér í góðar stöður.“ „Ég er að bíða eftir að hann verði bara svona eins og Sagosen er hjá Noregi, hann er bara gaurinn.“ Annað sem Aron vonast eftir að sjá frá liðinu á EM er meiri einkenni varnarlega og tekur þar dæmi frá síðasta stórmóti, HM í fyrra, þar sem Ísland vann tvo sterka sigra á Slóveníu og Egyptalandi. „Það varð allt vitlaust, við vorum að fara að vera heimsmeistarar og allt það. Ég man að eftir leik þá fer ég eiginlega beint til Óskars og ég bara: Heyrðu, við þurfum að passa okkur, Viktor Gísli er að verja 50% hérna og hann er að verja 12 bolta sem hann á ekki að vera að verja.“ Aron vonast eftir því að leikmennirnir nái að sýna betur hvað það er sem liðið vill nákvæmlega gera varnarlega. Það hafi verið of misjafnt milli leikja undanfarið. Allir þrír þættir Biðstofunnar eru aðgengilegir í Spilara RÚV og á hlaðvarpsveitum. Fyrsti leikur Íslands á EM er gegn Ítalíu föstudaginn 16. janúar.