Vilja samræmd próf í vor og að niðurstöður einstakra grunnskóla verði birtar opinberlega

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur kynnt til umsagnar drög að reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmds námsmats í grunnskólum. Samkvæmt reglugerðinni sem nú hefur verið kynnt í Samráðsgátt er stefnt að birtingu bæði árangurs nemenda á landsvísu sem og niðurstaðna einstakra grunnskóla. Reglugerðin snýr annars vegar að nýju samræmdu prófunum í íslensku og stærðfræði sem allir nemendur í 4., 6. og 9. bekk grunnskóla gangast undir í fyrsta sinn í vor og hins vegar að safni valkvæðra matstækja Matsferils. Hvað er matsferill? Samræmda námsmatið, Matsferill, er miðlægt heildstætt safn matstækja í formi staðlaðra stöðu- og framvinduprófa, skimunarprófa og annarra matstækja sem kennarar og skólar geta nýtt sér í kennslu og við mat á stöðu og framvindu hvers barns í námi, jafnt og þétt yfir skólagönguna. Heimild: Mennta- og barnamálaráðuneytið. Hver eru markmið Matsferils Markmið Matsferils er að veita upplýsingar um stöðu og framfarir nemenda, meta árangur miðað við ákveðin hæfniviðmið aðalnámskrár, styðja við skipulag kennslu og snemmtækan stuðning, veita nemendum, foreldrum, skólum og menntayfirvöldum upplýsingar um námsárangur og námsframvindu nemenda, veita samanburðarhæfar upplýsingar um stöðu grunnskóla, sveitarfélaga og skólakerfis í heild til stefnumótunar í námi og kennslu. Heimild: Mennta- og barnamálaráðuneytið. Niðurstöður samræmda námsmatsins á að nýta við skipulag náms og kennslu nemenda. Grunnskólar eiga fylgja eftir niðurstöðunum þannig að slíkt mat leiði til umbóta í skólastarfi og ber að gera skólanefndum sveitarfélaga árlega grein fyrir niðurstöðum og umbótum. Þá á miðstöð menntunar og skólaþjónustu að nýta niðurstöður til að styðja við skólastarf. Niðurstöður skyldubundinna prófa verða gerðar aðgengilegar og birtar opinberlega, til dæmis staða hvers skóla miðað við landsmeðaltal í skólum yfir ákveðnum nemendafjölda. Ráðuneytið hvetur foreldra, kennara, skólastjórnendur, nemendur, aðra hagaðila og alla þá sem láta menntun barna sig varða til að veita endurgjöf.