Samfylkingin þarf að vinna aftur traust íbúa borgarinnar fyrir borgarstjórnarkosningar í vor. Geri flokkurinn það ekki er hætt við að borgarmálin fari í aðra átt. Sitjandi borgarstjóri telur sig hafa mikinn meðbyr sem oddviti fyrir kosningarnar. Hún segir breytingar væntanlegar hjá flokknum fyrir kosningarnar. Býður sig fram til að kalla fram breytingar Pétur segist bjóða sig fram til að kalla fram breytingar. „Borgarstjórn hefur ekki notið hylli Reykvíkinga um langt skeið. 80% Reykvíkinga segjast ekki bera traust til borgarstjórnar. Það er ekki Heiðu að kenna, alls ekki, þetta er yfir langan tíma.“ Pétur segist hlynntur stefnu flokksins í grófum dráttum. „Ég óttast að ef kosningarnar fara illa í vor að þá verði farið í allt aðra átt og þess vegna býð ég mig fram, til þess að reyna að halda áfram með þessa stefnu.“ Flokkurinn þurfi að vinna aftur traust borgarbúa. „Ég held að upplifun fólks sé að borgarstjórn sé bara í Ráðhúsinu og Borgartúninu og að það sé ekki hlustað á fólk. Þetta á við um skipulagsmál en að hverfin sjálf séu afskipt. Minni hlutinn í borginni hefur jafnmikið að segja um þetta. Borgin hefur verið á réttri leið en auðvitað hafa verið gerð mistök.“ Pétur nefnir nokkur mál sem hefðu mátt fara betur, til dæmis græna gímaldið, óánægju með leikskóla, umferðina og bílastæðamál. „Það þarf aðeins að viðurkenna þessi mistök og ég ítreka það að kosningarnar í vor munu snúast um það hvort við eigum að halda áfram á þessari leið eða hvort við eigum að fara allt aðra leið. Ég óttast að ef við förum allt aðra leið, ég er viss um að við Heiða erum sammála þarna, þá erum við að bregða frá þessu norræna velferðarmódeli eins og bestu borgir í heimi eru. Borgirnar í Skandinavíu sem eru byggðar á þessu sósíaldemókratíska kerfi eru kannski bestu samfélög sem hafa verið byggð í mannkynssögunni.“ Reykjavík sé þar á meðal en borgin hafi verið töluð niður. Nú séu tækifæri. Lítur ekki svo á að stór hópur innan flokksins treysti sér ekki Heiða Björg fagnar því að fá fleiri til liðs við Samfylkinguna í borginni. Hún segir augljóst að það verði breytingar hjá Samfylkingunni í kosningunum í vor. „Af sex efstu sætum síðast þá eru aðeins tveir að gefa kost á sér áfram. Þannig að það er mikið pláss fyrir nýja og við fögnum því að fólk sé að koma til liðs við okkur til að hjálpa okkur í þessari baráttu. Því barátta okkar er um jöfnuð og jafnrétti og að hér sé borg sem við öll tilheyrum og öll upplifum að við fáum að taka þátt í að móta.“ Heiða lítur ekki svo á að stór hópur innan flokksins treysti henni ekki til að vera oddviti. „Allavega ekki samkvæmt þeim mælingum sem ég hef séð, þá er Samfylkingarfólk frekar ánægt með mín störf. Ég hef fundið fyrir miklum meðbyr. Þær áherslubreytingar sem ég hef komið inn með síðan Dagur hætti hafa almennt lagst vel í fólk.“ Fylgi Samfylkingarinnar í borginni hefur dalað og aðeins tvö prósent völdu hana sem borgarstjóra í Gallup-könnun fyrir nokkrum mánuðum. Heiða telur sig hafa meðbyr. „Borgarstjóraembættið og borgarstjórn nýtur í sjálfu sér ekki trausts og það hefur ekki endilega breyst, því miður. Auðvitað hefði ég viljað sjá það að fólk treysti okkur betur. Ég hef reynt að sinna þessu verkefni þannig að ég sé að sinna verkefnunum og að ég sé að halda ró í borgarstjórn.“ Þurfa að gera betur í leikskólamálum Vandræði í leikskólamálum hafa verið áberandi undanfarin misseri. Bæði hefur þurft að loka leikskólum vegna myglu en mannekla hefur líka verið til staðar og sumir leikskólar hafa þurft að grípa til þess ráðs að loka einhverja daga í viku vegna þessa. Heiða segir að yfir tvö þúsund manns starfi á leikskólum borgarinnar og að tæplega 50 vanti til vinnu. „Það hefur gengið býsna vel að ráða. Það eru mjög margir sem vinna þarna alla daga af heilum hug og starfið í leikskólum borgarinnar er almennt frábært.“ Allir eigi að geta treyst á að þjónusta á leikskólum sé til staðar, áreiðanleg og góð. „Auðvitað skil ég vel að fólk geri lítið úr því og verði pirrað á því. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna betur með og gera betur. Við höfum sannarlega fjölgað plássum, við erum að byggja nýja skóla og ætlum okkur sannarlega að gera betur og höfum sýnt það síðustu ár að við gerum það.“ Pétur segir mikilvægast í leikskólamálunum að hugsa um þá sem standi höllum fæti í samfélaginu. Honum hugnast ekki tvöfalt kerfi í leikskólum, þar sem sumir skólar séu fyrir ríka fólkið og aðrir fyrir fátæka fólkið. Rekstrarmódelið sé ekki aðalmálið. „Aðalmálið er að við hugsum að það verði alltaf jöfnuður, að þetta verði ekki tvöfalt kerfi eins og maður sér í öðrum löndum.“ Viðtalið við Heiðu Björg og Pétur má sjá í heild sinni í spilaranum. Pétur Marteinsson óttast að borgarmálin fari í allt aðra átt í vor fari illa fyrir Samfylkingunni í sveitarstjórnarkosningum. Flokkurinn þurfi að vinna aftur traust borgarbúa. Heiða Björg Hilmisdóttir, sitjandi borgarstjóri, telur sig hafa meðbyr.