Flest þeirra sem upphaflega veigruðu sér við að þiggja bólusetningu gegn COVID-19 gerðu það að lokum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var á Englandi og birtar voru í vísindatímaritinu Lancet . Rannsóknin byggði á spurningalista sem sendur var yfir milljón íbúum landsins í janúar 2021 og í mars árið eftir. Átta af hundraði svarenda 2021 kváðust hikandi en árið eftir var hlutfallið komið niður í eitt prósent. Næstum tveir af hverjum þremur þeirra sem upphaflega voru efins þáðu minnst einn skammt bóluefnis, samkvæmt tölum heilbrigðisþjónustunnar NHS sem getið er í rannsókninni. Uggur þeirra sem líklegast var að snerist hugur beindist upphaflega að virkni bóluefnanna eða áhrifum þeirra á heilsufar. Viðhorfsbreyting ólíklegri hjá þeim sem vantreysta stofnunum Viðhorfsbreyting var mun ólíklegri hjá þeim sem almennt vantreysta stofnunum og sérfræðingum eða trúa ekki á virkni bóluefna. Bóluefnin við COVID-19 voru þróuð á mettíma og hægðu mjög á útbreiðslu faraldursins eftir að dreifing þeirra hófst snemma árs 2021. „Efinn um gildi bóluefnanna stafaði af raunverulegum áhyggjum sem sigrast má á með tímanum, sé aðgengi upplýsinga nægilegt,“ segir í greininni. „Niðurstöðurnar sýna mikilvægi þess að tryggja aðgengi almennings að áreiðanlegum upplýsingum svo hann geti tekið ígrundaðar ákvarðanir,“ segir einn skýrsluhöfunda, Paul Elliott, deildarforseti lýðheilsulækninga og faraldsfræði við Imperial College of London. Ítölsku vísindamennirnir Claudia Palmieri og Silvio Tafuri, sem ekki voru hluti rannsóknarteymisins, segja niðurstöðurnar hafa áhrif langt út fyrir þær einstöku aðstæður sem uppi voru í kórónuveirufaraldrinum. Í grein sem birtist í sama tölublaði Lancet segja þau brýnt að meta hvort efasemdir af sama eða svipuðu tagi hafi áhrif á viljann til að þiggja bólusetningu við öðrum smitsjúkdómum á borð við mislinga eða flensu.