Forsetinn myndi greiða atkvæði með sameiningu við Rúmeníu til að verjast Rússum

Maia Sandu, forseti Moldóvu, kveðst myndu greiða atkvæði með sameiningu við nágrannaríkið Rúmeníu til að vernda viðkvæmt lýðræði landsins fyrir ágangi Rússa, kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sandu sagði þetta í viðtali í breska hlaðvarpinu The Rest is Politics á sunnudag. „Sjáið bara hvað er að gerast í veröldinni. Það verður sífellt erfiðara fyrir smáríki eins og Moldóvu að viðhalda lýðræði og fullveldi, að ég tali ekki um að verjast Rússum,“ sagði Sandu. „Kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu kysi ég með sameiningu við Rúmeníu,“ sagði forsetinn. Sandu kveðst vita að fæstir landsmenn styðji viðhorf hennar enda sýni nýjar kannanir að eingöngu þriðjungur þeirra Moldóva sem einnig hafa rúmenskan ríkisborgarararétt vilji sameiningu. Flokkur Sandu, Flokkur aðgerða og samstöðu (PAS), fékk endurnýjað umboð í kosningum í september og vill ganga í Evrópusambandið fyrir 2030. Í október samþykkti stjórnin nýja áætlun í varnarmálum þar sem Rússland var skilgreint sem helsta öryggisógnin gegn landinu. Þar var einnig varað við möguleikanum á að innrásarstríð Rússa í nágrannaríkið Úkraínu kynni að teygja anga sína til Moldóvu. Rúmenía er bæði í NATÓ og Evrópusambandinu. Til að öðlast inngöngu þarf að koma á margvíslegum umbótum í Moldóvu sem getur orðið þrautin þyngri, ekki síst vegna andstöðu Rússa og Sósíalistaflokks Moldóvu sem hliðhollur er þeim. Hann var seinast við völd árið 2020. Moldóva var hluti Rúmeníu milli heimsstyrjalda en var innlimað í Sovétríkin í þeirri síðari. Moldóva hlaut sjálfstæði 1991 við fall Sovétríkjanna. Þar búa um 2,4 milljónir manna, meirihlutinn rúmenskumælandi og minnihluti talar rússnesku.