Huga þarf betur að því að verja innviði hér á landi og huga að viðbrögðum við mögulegum fjölþáttaógnum, segir Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna og stjórnarformaður Samorku. Ísland sé í sérstakri stöðu þar sem leggja þurfi áherslu á bæði náttúruöflin og spennu í alþjóðamálum þegar hugað sé að vörnum landsins. „Við getum sagt að við séum í ákveðnu stríði í Evrópu, sem felst í því að það eru hernaðarleg átök sums staðar í Evrópu en annars staðar eru markvissar árásir sem felast í þessum fjölþátta árásum,“ segir Sólrún á Morgunvaktinni á Rás 1. Sólrún skrifaði grein á vef Veitna þar sem hún fjallaði um öryggi innviða. „Það sem við höfum verið að sjá, sérstaklega frá árinu 2022, hefur markvisst verið aukning í að því sem við getum kallað ómissandi innviði, orku- og veituinnviðum, annars staðar í Evrópu en þar sem hernaðarátökin eru, þau eru að aukast mikið.“ „Við getum auðveldlega orðið skotmark“ Sólrún nefnir aukin skemmdarverk á vatnsveitum á Norðurlöndunum og segir Íslendinga ekki undanskilda þrátt fyrir landfræðilega einangrun. Ísland sé í sérstakri stöðu þar sem leggja þurfi áherslu á bæði náttúruöflin og spennu í alþjóðamálum þegar hugað sé að vörnum landsins. „Við þurfum að huga að, ekki bara náttúruvánni, heldur því að við getum líka mjög auðveldlega orðið skotmark í svona hernaði. Við erum kannski ekki búin að vera að huga nógu vel að þessum þætti þegar við erum að setja upp varnir í kringum innviðina okkar.“ Innviðir séu samfélagslegt öryggismál sem Sólrún segir ánægjulegt að verið sé að leggja meiri áherslu á hér á landi. Hins vegar þurfi meira til. Sólrún segir þurfa víðtækara og öflugra samráð og skýrar áætlanir. Skilgreina þurfi hvaða innviðir séu ómissandi, hver hafi umboð og hver beri ábyrgð þegar eitthvað kemur fyrir. „Við þurfum að setja upp viðbragðsáætlanir sem gera okkur meira kleift að passa að þessi atvik komi ekki fyrir en við þurfum líka að vera miklu stórtækari í að huga að því hvað ætlum við að gera þegar eitthvað svona gerist, hvernig verðum við fljót aftur á lappirnar þegar eitthvað alvarlegt gerist. Því það mun eitthvað gerast hjá okkur alveg eins og annars staðar í heiminum.“