Karlmaður á sextugsaldri var í síðustu viku dæmdur til 60 daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Hann ók vísvitandi utan í hlið jeppa með þeim afleiðingum að sá lenti utan vegar. Bílstjóranum tókst þó að ná stjórn á jeppanum og koma honum aftur upp á veg án þess að nokkur meiddist. Atvikið átti sér stað á Hellisheiði í janúar 2024. Mennirnir voru á leið austur yfir heiðina. Annar þeirra tók fram úr öðrum bíl og varð þess þá var að ákærði kom upp að honum og byrjaði að flauta. Þegar maðurinn gat skipt yfir á hægri akrein nokkru síðar ók ákærði upp að hlið hans, keyrði utan í bílinn og ók síðan á brott. Við ákeyrsluna fór jeppinn út af veginum en bílstjóranum tókst að koma honum aftur inn á veginn. Hann tilkynnti atvikið til lögreglu sem hafði samband við bíleigandann sem reyndist ekki hafa verið á bílnum þegar honum var ekið á jeppann. Þar var á ferð maður sem tengdist konunni. Neitaði, játaði og dró síðan úr Maðurinn neitaði því við fyrstu yfirheyrslur að hafa verið á bílnum. Því næst játaði hann sök og sagðist hafa tekið bílinn í heimildarleysi þegar hann var mjög reiður yfir að hafa verið synjað um endurveitingu ökuréttar. Að lokum sagði hann það hafa verið óhapp að bílarnir lentu saman. Í annarri skýrslutökunni, þar sem maðurinn játaði sök, sagðist hann hafa misst einbeitingu stutta stund nærri Norðlingaholti og ekið aftan á kyrrstæðan BMW-bíl. Hann hafi þó haldið áfram för sinni þar sem hann var ekki með ökuréttindi. Eftir það hafi hann lent fyrir aftan jeppa sem hleypti sér ekki fram úr, þegar hann loksins komst fram úr honum hefði hann vísvitandi ekið létt utan í jeppann. Ófyrirleitinn akstur Dómari við Héraðsdóm Suðurlands mat framburð mannsins fyrir dómi ótrúverðugan og taldi hann reyna að draga úr ábyrgð sinni. Framburður ökumanns jeppans sem keyrt var á þótti hins vegar trúverðugur og í fullu innra samræmi. Dómari taldi hafið yfir allan vafa að maðurinn hefði viljandi ekið utan í annan bíl á umtalsverðum hraða á ófyrirleitinn hátt sem hafi verið til þess fallið að stofna lífi og heilsu annarra í augljósan háska.