Drífa Snædal talskona Stígamóta segir samfélagið þurfa að ákveða hvort réttarkerfið eigi að virka fyrir þolendur kynferðislegs og kynbundins ofbeldis. Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í dag sýni að íslenska ríkið sé að bregðast þolendum. Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í dag í málum fimm kvenna gegn íslenska ríkinu á grundvelli óréttlátrar málsmeðferðar. Ríkið var dæmt brotlegt í einu máli en sýknað í hinum fjórum. Níu konur kærðu íslenska ríkið með aðstoð Stígamóta fyrir nokkrum árum fyrir að hafa brotið á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Þær höfðu allar kært nauðgun, heimilisofbeldi eða kynferðislega áreitni til lögreglu en málin voru felld niður af ákæruvaldinu. „Það má segja að niðurstaðan í dag sé sú að enn og aftur er íslenska ríkið dæmt brotlegt gegn brotaþolum kynferðisofbeldis. Það er að segja að íslenska ríkið hefur brugðist þeim,“ segir Drífa. Þrjár af þeim fimm konum sem fengu niðurstöðu í sínum málum í dag voru undir lögaldri þegar þær kærðu meint brot til lögreglu á árunum 2012 til 2019. Sú yngsta var sextán ára og var ríkið sakfellt í hennar máli. „Hvað þarf til ef játning er ekki nóg?“ Samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstólsins játaði maðurinn, sem var þá 23 ára, að hafa snert hana þegar hún var sofandi eða hálfsofandi. Ríkið var dæmt til að greiða konunni 7.500 evrur í bætur, jafnvirði tæplega 1,1 milljón króna. „Það sem er mjög sérstakt í þessu máli sem er dæmt í í dag er að það liggur játning fyrir um að það var brotið á manneskju. Samþykki lá ekki fyrir,“ segir Drífa. „Nú spyrjum við okkur hjá Stígamótum, hvað þarf til til þess að mál af þessu tagi fari alla leið í kerfinu án þess að vera látið niður falla og þau séu dæmd ef játning er ekki nóg. Það er ekki skrítið að brotaþolar á Íslandi treysti illa réttarkerfinu.“ Á hvaða forsendum var ríkið sakfellt? Ríkið var dæmt brotlegt gegn 8. grein mannréttindasáttmála Evrópu í einu máli í dag. Það var sakfellt á grundvelli sömu greinar í ágúst. Sú grein fjallar um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Samkvæmt henni eiga allir rétt til friðheldi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta. „Opinber stjórnvöld skulu eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.“ Samkvæmt Stígamótum braut íslenska ríkið gegn jákvæðum skyldum sínum með því að fella niður málin þar sem að það lét fyrirfarast að sakborningur yrði gerður ábyrgur fyrir gjörðum sínum fyrir dómstólum, og ekki verndað andlega eða líkamlega friðhelgi brotaþola. Íslenska ríkið var ekki dæmt brotlegt gegn eftirfarandi greinum sem vísað var til í málunum sem úrskurðað var í í dag: 2. grein sem fjallar um rétt til lífs. 3. grein sem fjallar um bann við pyndingum. 14. grein sem fjallar um bann við mismunun. Drífa segir aðeins um 10% þeirra sem leita til Stígamóta kæra til lögreglu. „Við sem samfélag þurfum að ákveða hvort við ætlum að láta réttarkerfið virka fyrir brotaþola kynferðislegs ofbeldis og kynbundins ofbeldis eða ætlum við bara að viðurkenna og samþykkja að þessi brot séu eitthvað sem er í lagi. Við stöndum á tímamótum núna og þurfum að ákveða hvert við ætlum að halda áfram.“ „Við óbreytt ástand verður ekki unað“ Drífa segir Stígamót hafa byrjað að safna undirskriftum til að þrýsta á úrbætur þegar niðurstöður lágu fyrir í tveimur öðrum málum í ágúst. Þá var ríkið sakfellt í einu máli, á grundvelli sömu greinar Mannréttindarsáttmála Evrópu og í dag, en sýknað í öðru. „Við þurfum núna aðsetjast niður sem samfélag og ræða hvernig við ætlum að ná fram réttlæti í þessum málum því við óbreytt ástand verður ekki unað. Við erum í rauninni að gefa þau skilaboð út í samfélagið að það megi meiða, það megi brjóta á konum, það hafi ekki afleiðingar. Við erum að gefa þau skilaboð til kvenna og ungra stúlkna að þeirra líðan og brot gegn þeim skipti ekki máli.“