„Það verður að vera alvöru hætta“

„Þetta er mjög mikil áskorun en ég er ótrúlega glöð að Þjóðleikhúsið hafi verið til í þetta,“ segir Elín Hansdóttir sem hannaði leikmyndina að Óresteiu sem sýnd er í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Leikstjórn er í höndum Benedict Andrews og leikurinn hjá kröftugum fimm manna leikhópi sem fer með öll hlutverkin. Lóa Björk Björnsdóttir ræddi við Elínu í Lestinni á Rás 1 um leikmyndina sem vakið hefur mikla athygli. Leikmyndin er þess eðlis að ekki er hægt að keyra aðrar sýningar í rýminu á sama tíma. Hún er níðþung, henni er rústað og hún svo sett aftur saman fyrir hverja sýningu. Algjört þrekvirki leikaranna að breyta leikmyndinni Í fyrstu virðist leikmyndin nokkuð einföld þar sem stórt kassalaga ljós trónir yfir steinhellum sem er snyrtilega upp raðað. Í gegnum verkið tekur hún þó töluverðum breytingum og sinnir hinum ýmsu hlutverkum. „Þetta er bara byggingarefni sem fæst víða. Þetta eru hellur, ekki úr gifsi eins og sumir halda heldur svokallaðri froðusteypu, efni sem búið er að blása lofti í sem gerir það svolítið eins og svamp,“ útskýrir Elín. „Þó er hver einasta hella næstum því tíu kíló. Þetta er algjört þrekvirki leikaranna að vera að breyta leikmyndinni á meðan sýningunni stendur. Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað þetta er þungt.“ Áttu góðan grunn til að byggja á Hún segir að það hafi verið þeim Andrews mjög mikilvægt frá upphafi að leikmyndin væri ekki úr neinu gerviefni. „Þetta er allt raunverulegt efni sem maður finnur fyrir þyngdinni á.“ Að skapa leikmynd er mikil samvinna milli leikstjóra og leikmyndahönnuðar. Þetta er í fyrsta sinn sem þau Andrews vinna saman en þau hafa þó verið vinir í tæp 20 ár. „Við kynnumst í Berlín þegar ég bjó þar og hann á sama tíma.“ „Við áttum mjög góðan grunn til að byggja á, þannig samstarfið var bara ótrúlega gjöfult og skemmtilegt og gaman að kynnast vini sínum á svona faglegan hátt líka.“ Hugmyndin að leikmyndin verði eins og sláturborð Hún segir Andrews hafa haft skýra sýn frá upphafi. „Hann sér fyrir sér aðstæður langt fram í tímann og er mjög skipulagður. Þegar hann býður mér að taka þátt þá er hann með þessa hugmynd að vera með áhorfendur á öllum hliðum eins og hann gerði í London í fyrra og vildi þróa áfram. Þegar hugmyndin að froðusteypunni var komin fóru hjólin fljótt að snúast. Efsta lagið á leikmyndinni er laust og það sem leikararnir vinna mest með. Þeir höggva í hana og brjóta, hún verður ötuð gerviblóði og leir. „Þetta er svona leikmynd sem er þannig að eftir því sem á líður, eftir því sem fleiri sýningar verða, því meira sjúskast hún. Það er partur af hugmyndinni, að þetta sé eins og sláturborð.“ „Það er enginn að upplifa sömu sýninguna tvisvar“ „Við þurfum að skipta út hellum, það er alveg ljóst,“ segir Elín þó að hugmyndin sé að endurvinna hellurnar sem mest. „Auðvitað er þetta mjög umfangsmikil sýning að því leyti. Hún er ekkert í keyrslu og alltaf eins. Þetta er rosalegt álag á þá sem vinna í sviðsdeildinni og þau eiga alveg hrós skilið.“ „Líkamlega er þetta mjög mikil áskorun fyrir allt tækniliðið í húsinu vegna þess að það þarf að þrífa gerviblóðið. Það er gífurleg vinna sem fylgir hverri einustu sýningu, sem er nú þegar fjórir tímar.“ Hún segist þakklát Þjóðleikhúsinu fyrir að hafa fallist á þetta verkefni. „Vegna þess að það er óvenjulegt að vinna svona, á Íslandi sérstaklega. Ég held að upplifunin sé líka allt önnur því þú veist í rauninni aldrei hvað þú færð þegar þú kemur sem áhorfandi vegna þess að leikararnir leika heldur ekkert alltaf senurnar á sömu stöðunum í leikmyndinni.“ „Það er enginn að upplifa sömu sýninguna tvisvar.“ Hún segir leikarana líka eiga mikið hrós skilið fyrir hve vel þau nýta rýmið, það sé ákvörðun og áskorun að fara aldrei á sama staðinn. „Þau eru að leggja alveg svakalega mikið á sig“ Áhorfandinn finnur virkilega fyrir því að raunveruleg hætta fylgi sýningunni, leikararnir eru að leggja mikið á sig sem eykur spennustigið. „Það verður að vera alvöru hætta. Þau eru til dæmis á tánum allan tímann sem er rosalega erfitt fyrir þau því það eru brot á sviðinu sem er eins og að stíga á legókubba. Þau eru að leggja alveg svakalega mikið á sig.“ „Þau þurfa líka að passa upp á hvert annað. Spennustigið er hátt á þessari sýningu og maður er á nálum allan tímann. Ég held að þess vegna líði þessir fjórir tímar hratt, af því að það er spenna í loftinu.“ Spennustigið er hátt á leiksýningunni Óresteiu þar sem leikmyndin er bæði lifandi og hættuleg. Elín Hansdóttir, leikmyndahönnuður, segir engan sjá sömu sýninguna tvisvar og leikararnir og tæknideildin eigi öll mikið hrós skilið fyrir þrekvirkið. Rætt var við Elínu Hansdóttur í Lestinni á Rás 1. Viðtalið má finna í spilaranum hér fyrir ofan.