„Við munum taka símtal okkar á milli þar sem við förum aðeins yfir stöðuna,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra um viðræður við aðra forsætisráðherra Norðurlandanna í dag um málefni Grænlands. Bæði auðvitað þróun síðustu daga og vikna og kannski líka hvernig þau sjá morgundaginn fara fram, segir Kristrún sem vísar til fundar Lars Løkke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, og Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, með Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og J.D. Vance, varaforseta Bandaríkjanna, í Washington á morgun. „Partur af þessum fundi er auðvitað þetta nána samstarf sem þessi hópur hefur haft. Við höfum lýst yfir eindregnum stuðningi þegar það kemur að framtíð Grænlands, að hún ráðist í Nuuk og það verða skilaboðin mín inn á þennan fund,“ segir Kristrún. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji ná yfirráðum yfir Grænlandi. Embættismenn innan Atlantshafsbandalagsins ræða mögulegar aðgerðir til að auka viðveru bandalagsins á norðurslóðum vegna orða forsetans. Kristrún segir að forsætisráðherrar Norðurlandanna komi einnig til með að ræða það síðar í dag. „Þetta er auðvitað allt nýtilkomið ef ég get verið fullkomlega hreinskilin,“ segir Kristrún. „Þessi staða sem er núna uppi á norðurslóðum og norðarlega í Atlantshafi. Hún telur þó hægt að sjá jákvæða hlið á málinu. „Að sumu leyti hefur þetta ýtt við fólki og við höfum lagt áherslu á það að öryggismál hér á þessum stað þurfa að vera í umræðunni. Þau þurfa að vera í fókus í NATO. Það er jákvæði vinkillinn í þessu þó að sjálfsögðu höfum við áhyggjur af stöðunni í Grænlandi,“ segir Kristrún.